Fréttaskýring: Sameinast um að „vinna bug á ósið“

Ganga má út frá því að tugþúsundir einstaklinga séu í …
Ganga má út frá því að tugþúsundir einstaklinga séu í ábyrgðum fyrir fjárskuldbindingum annarra. Nú er allt útlit fyrir að breyting verði á.

Persónulegar ábyrgðir einstaklinga á lánum annarra hafa verið víðtækar og margir þekkja sorgarsögur innan fjölskyldna um afleiðingar þess þegar lán falla á ættingja, sem skrifað hafa upp á. Þingmannafrumvarpið sem þrengir mjög að ábyrgðarkerfinu varð að lögum frá Alþingi í gær. Frumvarpið var samþykkt með 32 samhljóða atkvæðum á Alþingi.

Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingunni, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en hann hefur oft flutt frumvarp um ábyrgðarmenn á sl. árum. Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, hefur einnig stutt það ötullega í gegnum árin. En það er fyrst nú sem það nær í gegn. Þingmenn úr öllum flokkum stóðu að frumvarpinu sem samþykkt var í gær.

Lúðvík segir ábyrgðarkerfi eins og hér hefur verið hvergi þekkjast í sama mæli og hér. „Þetta hefur verið mjög slæmur kúltúr og örugglega grafið undan fagmennsku í bankakerfinu í gegnum tíðina,“ segir Lúðvík. „Mér fannst mikilvægt bæði fyrir viðskiptalífið, bankageirann og almenning í landinu að við vinnum bug á þessum ósið. Ég er sannfærður um að þetta leiðir af sé heilbrigðara og betra fjármála- og bankakerfi,“ segir Lúðvík.

Lögin sem öðlast strax gildi eru þó ekki afturvirk. Þau girða í reynd ekki með öllu fyrir notkun ábyrgða en þau munu draga mjög úr vægi þeirra. Þannig verður t.d. bannað að gera aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr ef um persónulega ábyrgð er að ræða. Þetta á þó ekki við þegar ábyrgðarmaður hefur veitt veðleyfi í fasteign sinni. Þá eru lögð fjölmörg skilyrði á herðar lánveitanda um að veita ábyrgðarmanni skriflega upplýsingar um áhættuna sem í ábyrgð felst og lánveitandi getur ekki gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir.

Flestir sem veittu umsögn um frumvarpið voru jákvæðir í garð þess en Samtök atvinnulífsins gagnrýndu þó að væntanleg lög muni gera mjög mörgum ókleift að gangast í ábyrgð fyrir lánum og kippa fótunum undan sjálfsskuldarábyrgðarkerfinu.

„Svona mál eru alltaf að koma inn á borð hjá okkur, bæði lánsveðin og ábyrgð þriðja manns,“ segir Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimila. Hún segir m.a. dæmi um fólk sem hefur átt í miklum greiðsluerfiðleikum og látið afborgun af láni ganga fyrir öðrum útgjöldum svo að það falli ekki á ættingja, sem gengist hafa í ábyrgð. Þetta hafi jafnvel gengið svo langt að fólk hafi ekki átt fyrir mat því það vilji frekar standa undir afborgun af láni en að þau falli t.d. á foreldra.

Ábyrgðarmannakerfið var í hámarki á seinasta áratug. Rannsókn árið 2006 leiddi í ljós að þá væru sennilega um 90 þúsund einstaklingar yfir 18 ára aldri í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila, eða hátt í helmingur þjóðarinnar á þessum aldri. Til að stemma stigu við ástandinu var gengið frá samkomulagi fyrir rúmum tíu árum milli fjármálastofnana o.fl. um notkun ábyrgða til að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga. Þetta leiddi til þess að ábyrgðarmönnum fækkaði verulega en eftir voru ábyrgðarmenn enn um 75 þúsund árið 2004.

Hefur áhrif á LÍN

Ábyrgðarmenn eru óvíða fleiri í lánakerfinu en hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Nýju lögin um ábyrgðarmenn ná til ábyrgða hjá LÍN eins og til annarra lánastofnana en ábyrgðarmannakerfið verður þó væntanlega áfram við lýði nema ákvörðun verði tekin um að afnema það. Löggjöfin mun þó hafa í för með sér að fasteign ábyrgðarmanns á námsláni verður undanþegin aðför.LÍN mun þurfa að endurskoða lánareglur„Ég vænti þess að þetta leiði til þess að LÍN þurfi að endurskoða sínar reglur,“ segir Lúðvík Bergvinsson. Hann segir það þurfa sérstaka umræðu hvers vegna fjárfestingar í menntun til framtíðar taki mið af því hvort foreldrar geti skrifað upp á námslán. „Það er ekki í samræmi við hugmyndina um jafnrétti til náms.“

Í umsögn lánasjóðsins um frumvarpið kom fram að verði það að lögum þá muni sjóðurinn endurskoða sínar lánareglur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert