ASÍ: Múrum okkur inn í höft og bönn

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

Í vikunni voru gjaldeyrishömlur sem settar voru í nóvember hertar til muna, skrifar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ á vef sambandsins. „Það er eðlilegt að spurt sé á hvaða vegferð við Íslendingar erum þegar við sjálf setjum lög sem að banna útflutningsfyrirtækjum okkar að selja afurðir eða þjónustu í íslenskum krónum. Við virðumst því miður vera að múra okkur inn í höft og bönn," skrifar Gylfi.

Hann segir að haftastefna hafi aldrei reynst vel og hún feli alltaf í sér minnkandi hagvöxt og það er ekki það sem við Íslendingar þurfum einmitt núna.

„Það sem við þurfum er aukin trúverðugleiki. Það þarf trúverðugleika til að fá aðgang að fjármagni svo hægt sé að byggja aftur upp öflugt atvinnulíf á Íslandi.

Trúverðug efnahagsstefna og stöðugur gjaldmiðill er langmikilvægasti stuðningur sem við getum veitt nýsköpun og rannsóknarstarfi í landinu.

Alþýðusambandið hefur lagt fram ítarlegar tillögur um hvernig við Íslendingar getum endurheimt trúverðugleikann. Aðild að ESB og upptaka evru er leið til að skapa slíkan trúverðugleika því með henni værum við að skuldbinda okkur til að uppfylla stöðugleika skilyrði ESB. Í því fellst að ná markmiðum um verðstöðugleika, jafnvægi í ríkisrekstri, gengisstöðugleika og hóflega vexti," að því er segir í forsetabréfi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert