Harðar deilur á Alþingi

Umræður hófust á Alþingi nú kl. 11 og er rætt um störf þingsins. Mikill hiti er í þingmönnum og mikið um frammíköll. Ráðgert er að ræða áfram um stjórnarskrárbreytingar að þeim umræðum loknum, en umræður um stjórnskipunarlögin stóðu til klukkan tvö í nótt.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs í umræðum um störf þingsins og óskaði eftir upplýsingum um það hvaða annir réðu því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði ekki tök á að sækja NATO fundinn sem stendur nú um helgina. En tilkynnt hefur verið að forsætisráðherra hafi ekki tök á að fara vegna anna og því mun Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sækja fundinn í hennar stað. Sagði hún það gagnrýnivert að forsætisráðherra skyldi ekki nota tækifærið á NATO fundinum til þess að ræða beitingu Breta á hryðjuverkalögin gagnvart Íslendingum og til að fylgja eftir samningaviðræðum um Icesave málið.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði á móti hvort ekki hefði ákjósanlegt að fyrrverandi forsætisráðherra hefði tekið frumkvæði að því að mótmæla beitingu hryðjuverkalaga í samtali við forsætisráðherra Breta.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði ljóst að fyrirspyrjandi Ragnheiður Elín áttaði sig greinilega ekki á því hversu alvarleg staðan væri í íslensku efnahagslífi og annir forsætisráðherra miklar af þessum sökum. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, sagðist taka undir það með Ragnheiði Elínar að vissulega hefði verið æskilegra ef forsætisráðherra hefði haft tök á að sækja NATO fundinn, en að utanríkisráðherra væri fullfær um að sækja fundinn fyrir Íslands hönd. 

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mótmælti harðlega þeim orðum Ragnheiðar Elínar að krafa meirihlutans um stjórnlagaþing væri dúsa sem stungið væri upp í Framsóknarflokkinn sem þökk fyrir stuðning flokksins við sitjandi ríkisstjórn.

Ragnheiður Elín Árnadóttir kallaði eftir svörum frá formanni utanríkismálanefndar hvers vegna nefndin hefði ekki verið upplýst um fund utanríkisráðherra Íslands með utanríkisráðherra Breta.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, sagði að fundað yrði í nefndinni nk. mánudag og þar væri hægt að ræða málið. 

 Enn eru sjö þingmenn á mælendaskrá, en tíminn sem ætlaður er til þess að ræða störf þingsins er liðinn. Guðbjartur Hannesson, þingforseti, hefur því tilkynnt að umræðum um störf þingsins sé lokið og næst á dagskrá að ræða stjórnarskipunarlögin. 

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að dagskrá þingsins verði breytt þannig að hægt sé að ræða t.d. um heimild til samninga um álver í Helguvík og önnur málefni sem nýst gætu til atvinnusköpunar. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir með Arnbjörgu og sagði mikilvægt að forgagnsraða í stað þess að nota dýrmætan tíma til þess að ræða „stjórnlagaþing Framsóknarflokksins.“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kallar eftir því að forseti þingsins beiti sér fyrir því að samið verði um þingstörfin með fulltrúum allra flokka þannig að hægt verði að hleypa brýnum málum fyrst í gegn og bíða með stór umdeild mál á borð við stjórnarskipunarlög. 

Guðbjartur Hannesson, forseti þingsins, minnti á að enn væru 26 þingmenn á mælendaskrá í annarri umræðu um stjórnarskipunarlög og því ljóst að það mál væri mikið hjartans mál þeirra margra þingmanna Sjálfstæðismanna sem væru þar á mælendaskrá. 

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokks sem hann nefndi „fulltrúa málþófsflokksins“ hefðu augljóslega forgangsraðað og vildu eyða miklum tíma í að ræða stjórnarskrárbreytingarnar. 

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði ljóst að stjórnarandstaðan færi með völdin síðustu daga þingsins þrátt fyrir að þingsköpun hefði verið breytt í árslok 2007 til þess að stuðla að bættum vinnubrögðum á þingi. Bauð hún upp á þann möguleika að ljúka annarri umræðu og vísa stjórnarskipunarlögunum aftur inn í nefnd þar sem freista mætti þess að ná sátt um málið. Sagði hún ljóst að nú þegar hefðu öll sjónarmið um málið komið fram og því ekki ástæða til þess að ræða málið áfram á þingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert