Gert að fjarlægja sumarhús

Hæstiréttur hefur dæmt eigendur sumarhúss, sem reist var í Grímsnes- og Grafningshreppi, til að fjarlægja húsið. Er þetta gert samkvæmt kröfu manns, sem ásamt húseigendunum á  lóðina þar sem húsið stendur.

Um er að ræða deilu, sem hefur lengi staðið yfir milli lóðareigendanna. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2005, að taka ætti til greina kröfu meðeigandans um að ógilda byggingarleyfi vegna sumarhússins.

Byggingarnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps ákvað hins vegar að mæla ekki fyrir um að byggingin skyldi fjarlægð og jarðrask afmáð. Hæstiréttur segir nú, að ekki séu efni til að endurskoða þá matskenndu ákvörðun og ekki væri hægt að skylda sveitarfélagið til að fjarlægja sumarhúsið.

Rétturinn taldi hins vegar, að húseigendunum hafi mátt vera ljóst að byggingarleyfi til þeirra hafi verið veitt í blóra við samningsbundin og lögákveðin skilyrði og gegn andmælum meðeigandans að lóðunni. Af þeim sökum hafi leyfið verið háð annmörkum, sem hafi hlotið að leiða til ógildingar þess. Þrátt fyrir þetta hafi byggingunni verið haldið áfram og framkvæmdum lokið við sumarhúsið.

Segir Hæstiréttur, að húseigendurnir hafi því óhjákvæmilega borið áhættu af því að verðmæti, sem þær hafi myndað með framkvæmdum sínum, gætu farið forgörðum. Geti það því ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins að húseigendunum hafi tekist í þessari vondu trú að ljúka framkvæmdum áður en byggingarleyfið var fellt úr gildi með dómi.

Féllst rétturinn á, að efni væru til að skylda húseigendurna til að fjarlægja sumarhúsið af landinu að viðlögðum dagsektum. Var veittur þriggja mánaða frestur til þess.

Þá féllst Hæstiréttur á að Grímsnes- og Grafningshreppur skyldi greiða lóðareigandanum 457 þúsund krónur í bætur en vísaði öðrum bótakröfum frá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert