Skinney SF-20 til heimahafnar

Skinney SF-20, nýtt togveiðiskip Skinneyjar-Þinganess, kom til heimahafnar í hádeginu eftir rúmlega 57 daga siglingu frá Taívan.

Skinney er 242 tonn að stærð. Byrjað var á smíði skipsins árið 2005 og var það sjósett haustið 2007. Endurteknar tafir hafa orðið hjá skipasmíðastöðinni í Kaohsiung í Taívan og varð það ekki afhent fyrr en í byrjun febrúar. Í kjölfarið lagði Margeir Guðmundsson, skipstjóri loks af stað ásamt fjórum öðrum 10. febrúar. Skipið lagðist að bryggju í Hornafirði í hádeginu og hafði þá lagt að baki 10.500 sjómílur á 57 dögum.

„Þetta gekk ljómandi vel. Við vorum 49 daga á siglingu, stoppuðum í tæpa viku í Colombo á Sri Lanka og rúman sólarhring í Valetta á Möltu. Við fengum gott veður alveg upp í Rauðahaf. Eftir það fengum við brælu nánast að Gíbraltarsundi en fínasta veður eftir það í Atlantshafinu. Skipið reyndist mjög vel, þetta er gott sjóskip og hélt góðri ferð á móti brælunni,“ segir Margeir Guðmundsson, skipstjóri Skinneyjar.

Hann segir langt í frá að leiði hafi gert vart við sig þá tvo mánuði sem heimsiglingin tók. Nóg hafi verið við að vera.

„Það er svo mikið framboð af afþreyingu í dag, sjónvarp og annað. Svo dyttuðum við að skipinu, máluðum eitt og annað en það var gott að koma heim í dag. Nú tökum við gott páskafrí,“ segir Margeir.

Fjöldi fólks tók á móti Skinney þegar hún lagðist að bryggju og að lokinni tollskoðun fékk fólk loks að fara um borð og skoða.

„Nú gerum við skipið klárt, það á eftir að setja öll tæki á millidekkið og sitthvað fleira. Ætli það komist ekki á humarveiðar eftir mánuð eða þar um bil,“ sagði Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess.

Skinney við bryggju í Colombo á Sri Lanka
Skinney við bryggju í Colombo á Sri Lanka
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert