Snjóflóð á 200 km hraða

Snjóflóðavarnargarðarnir ofan byggðarinnar á Flateyri.
Snjóflóðavarnargarðarnir ofan byggðarinnar á Flateyri. www.mats.is

Snjóflóð, sem féll úr Skollahvilft á varnargarðinn ofan Flateyrar 30 mars var á um 200 kílómetra hraða samkvæmt radarmælingu sem gerð var á varnargarðinum. Veðurstofan segir, að hraðinn hafi verið nokkru meiri en búist var við fyrir flóð sem sé ekki stærra en þetta. 

Flóðið rann niður með endilöngum garðinum og náði niður í lónið við veginn út á eyrina. Flóðið rann um 5 metra lóðrétt upp á garðinn sem er 15-20 metra hár. Í febrúar 1999 féll talsvert stærra snjóflóð á sama stað og rann það um 13 metra upp á garðinn.

Hraði nýja flóðsins var mældur með radar sem staðsettur er á mastri ofarlega á varnargarðinum. Tveir radarar eru á varnargarðinum en einungis sá efri var virkur þann 30. mars þegar flóðið féll. Radarinn mælir hraða snjóflóðsins með endurkasti rafsegulbylgna með svipuðum hætti og radar lögreglu mælir hraða bifreiða.

Hraðamælingarnar á Flateyri eru hluti af rannsóknum til þess að meta áhrif varnargarða á flæði snjóflóða. Markmiðið er að bæta hönnun slíkra garða og öðlast betri skilning á örygginu sem þeir veita. Ofanflóðasjóður og fimmta rammaáætlun Evrópuráðsins fjármögnuðu mælitækin og rannsóknirnar.

Vefur Veðurstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert