Unnið úr 25% meira hráefni en sömu mánuði í fyrra

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Fiskvinnsla Samherja á Dalvík vann úr 25% meira hráefni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en sömu mánuði í fyrra og það sem af er árinu hefur útflutningur fyrirtækisins á ferskum, fullunnum afurðum aukist um 67% miðað við síðasta ár.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir það lykilatriði að geta ávallt afhent vöruna á tilsettum tíma og í því magni og þeim gæðum sem óskað er eftir. „Fullkomið afhendingaröryggi er það sem viðskiptavinurinn vill umfram allt og það hefur okkur tekist að tryggja.“

Fiskvinnsla Samherja í Dalvíkurbyggð er langstærsti vinnustaður sveitarfélagsins, með um 160 starfsmenn. Á síðustu fimm árum eru þeir dagar teljandi á fingrum annarrar handar sem vinnsla hefur fallið niður í húsinu, að sögn forstjórans, og í fyrra féll vinnsla einungis niður í hálfan dag. „Við leggjum mikinn metnað í að tryggja að þessi stóri hópur starfsmanna geti gengið að því vísu að mæta til vinnu alla mánudagsmorgna og vinna alla vikuna.“

Þorsteinn Már segir Samherja hafa tekist að byggja upp þetta atvinnuöryggi og afhendingaröryggi afurða á markaði með því að nota stór skip við hráefnisöflunina. „Stærri skip geta veitt í verra veðri en smærri skip og bátar. Að auki geta þau sótt aflann lengra og á skemmri tíma.“

Mun fleiri koma að framleiðslunni en þessir 160 því „60 til 70 sjómenn annast hráefnisöflunina og stór hópur kemur að markaðssetningu afurðanna og flutningi á fiski og afurðum á milli landshluta og landa. Hér er því um störf hátt í 300 manns að ræða.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert