Atvinnuleysi mælist 8,9%

mbl.is/Ómar

Hægt hefur á aukningu atvinnuleysis síðustu vikur og mældist það 8,9% í mars og hafði þá aukist úr 8,2% í febrúar, eða um rúm 9% milli mánaða. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítið í apríl og verði á bilinu 8,8-9,3%.

Atvinnuleysi jókst meira á höfuðborgarsvæðinu í mars heldur en á landsbyggðinni, en svipað meðal karla og kvenna.

Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að meðaltali voru 14.546 manns án atvinnu í mars og eykst atvinnuleysi um 9,6% að meðaltali frá febrúar eða um 1.270 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.674 manns.

Atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða 14,3%

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 14,3% en minnst á Vestfjörðum 2,3%. Atvinnuleysi eykst um 12% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst jafnt meðal karla og kvenna eða um 9,6%. Atvinnuleysið er 10,3% meðal karla og 7,2% meðal kvenna.
Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 1.749 í lok mars en 1.205 í lok febrúar. Alls höfðu 333 verið atvinnulausir lengur en eitt ár í mars en 296 í lok febrúar.
Atvinnulausum 16‐24 ára hefur fjölgað úr 3.308 í lok febrúar í 3.631 í lok mars og eru þeir um 22% allra atvinnulausra í mars eða svipað og í lok febrúar.

Alls voru 2.146 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok mars, þar af 1.397 Pólverjar eða um 65% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mars. Langflestir þeirra voru starfandi í byggingariðnaði eða 872 (um 40% allra erlendra ríkisborgara á skrá).

19,5% atvinnulausra fá hlutabætur

Samtals voru 3.275 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok mars í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í mars. Þetta eru um 19,5% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok mars.

Einstaklingum sem fá greiddar hlutabætur hefur fjölgað eftir að samþykkt voru lög um hlutabætur á móti minnkuðu starfshlutfalli um miðjan nóvember. Af þeim 3.274 sem voru í hlutastörfum í lok mars eru 2.202 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. áður nefndum lögum, en þeir voru 2.105 í lok febrúar og 1.279 í lok janúar.
Í mars voru 1.274 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, voru 1.017 í lok febrúar og 586 í lok janúar.

Spá áframhaldandi samdrætti

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá mars til apríl, m.a. vegna upphafs árstíðasveiflu. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og mældist 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu, gera má ráð fyrir litlum breytingum milli mánaða en vöxtur atvinnuleysis hefur minnkað talsvert undanfarnar vikur.

Atvinnulausum í lok mars fjölgaði frá lokum febrúar um 1.337 en um 14.931 frá sama tíma árið 2008.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í mörgum atvinnugreinum einkum verslun og þjónustugreinum á næstu mánuðum, hins vegar mun væntanlega draga úr atvinnuleysi í mannvirkjagreinum svo og ferðaþjónustu vegna árstíðasveiflu. Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í apríl 2009 muni breytast lítið og verða á bilinu 8,8%‐9,3%.

Skýrsla Vinnumálastofunar um stöðu á vinnumarkaði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert