Fundaði með BHM vegna gagnrýni

Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.
Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, átti í morgun fund með trúnaðarmönnum BHM vegna gagnrýni bandalagsins á yfirlýsingar varaformanns Vinstri grænna um lækkun launa. Ögmundur sagði á Alþingi í dag að misskilningi sem kynni að hafa verið uppi hafi verið eytt á fundinum.

Ögmundur sagði að þessu hafi verið tekið afskaplega vel á fundinum með trúnaðarmönnum BHM. Sjálfstæðismenn væru hins vegar að ýta undir misskilning á ummælum um kjarajöfnun.

„Ekki undir nokkrum kringumstæðum erum við að tala um að lækka almenna taxtalaunakerfið hjá hinu opinbera. Við viljum standa vörð um það kerfi. Þeir sem hafa smurt milljónir þar ofan á þurfa að hugsa sinn gang,“ sagði Ögmundur en sjálfstæðismenn gagnrýndu harðlega ummæli Vinstri grænna um þörfina á að lækka laun og hækka skatta.

Björn Bjarnason Sjálfstæðisflokknum sagði Ögmund tala í hálfkveðnum vísum. Ummæli Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Vinstri grænna, hafi verið alveg skýr, að hún vildi bæði lækka laun og hækka skatta. Sagði hann Ögmund skulda þinginu betri skýringar á þessum málum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa einnig vakið máls við umræður á þingfundi í dag, á gagnrýni forsvarsmanna Læknafélags Íslands á ummæli heilbrigðisráðherra um ávísanakerfi í læknaþjónustu. Heilbrigðisráðherra sé m.a. sakaður um að gefa til kynna að ávísanakerfið ýtti undir oflækningar og ekki sé hægt að treysta læknum til að fara með fjármunina. Björn Bjarnason sagði þetta furðulegar yfirlýsingar ráðherra ef réttar væru.

Ögmundur vísaði því alfarið á bug að hann hefði dæmt læknastéttina. Þvert á móti hafi hann lagt sig eftir góðu samstarfi við allar heilbrigðisstéttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka