Líf Lífar í höndum ráðherra

Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf.
Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf. mbl.is/Albert Kemp

Líf hreindýrskálfsins Lífar, sem heimilisfólkið að Sléttu utan við Reyðarfjörð bjargaði í fyrravor, er í höndum Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra en ráðuneytið veitir leyfi til að halda villt dýr. Umhverfisstofnun hefur bent ábúendum að Sléttu á að sækja þurfi um leyfi til að halda villt dýr, að öðrum kosti gæti þurft að aflífa dýrið.

Slökkviliðsmenn í Fjarðabyggð, sem voru í sjúkraflutningum í fyrravor, sáu hreinkú sem var að burði kominn. Þegar þeir komu til baka var kýrin farin en nýborinn hreindýrskálfur lá í vegkantinum. Kálfurinn var fluttur heim að Sléttu þar sem hlúð var að honum og hefur hann dafnað vel.

„Hreindýrið lifir bara góðu lífi hér á bænum og er eins og einn af hundunum. Svo fær maður svona hótunarbréf frá pappírspésum í Reykjavík um að sæki maður ekki um leyfi til að halda dýrið, þá verði það skotið,“ segir Dagbjört Briem Gísladóttir, bóndi að Sléttu í samtali við Morgunblaðið í dag.

Í bréfinu sem Dagbjört vísar til er ábúendum að Sléttu bent á að sækja þurfi um leyfi til að halda hreindýrskálfinn.

Karl Karlsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir í samtali við Morgunblaðið að Umhverfisstofnun hafi með bréfi sínu verið að benda á ákvæði laga, ekki hafi verið ætlunin að valda sárindum með bréfinu. Þá segir Karl mikilvægt að lífríkið fái að vera í friði. Ef flytja eigi dýr inn á svæði sem hugsað sé sem húsdýragarður, verði að skoða sjúkdómasögu bæjarins sem það er vistað á. Þá verði héraðsdýralæknir að veita samþykki fyrir flutningi, auk þess sem leyfi ráðuneytisins þurfi að liggja fyrir.

Karl er kominn að Sléttu til að skoða hreindýrskálfinn. Jafnframt mun hann leiðbeina ábúendum með umsóknina. Leyfisveitingin er í höndum umhverfisráðherra en samkvæmt upplýsingum mbl.is eru fá fordæmi fyrir leyfisveitingum af þessu tagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert