Vísbendingar um sterkan þorskstofn

Stofnvísitala þorsks í nýafstöðnu togararalli hækkaði um 9% frá mælingunni 2008. Segir Hafrannsóknastofnun, að fyrsta mat á stærð árgangs þorsks 2008 bendi til að hann sé sterkur. Þessa árgangs verður fyrst vart í veiðinni árið 2012. Stofnvísitala ýsu lækkaði um fjórðung frá því í fyrra.

Hafrannsóknastofnun segir, að hækkun stofnvísitölu þorsks frá fyrra ári megi einkum rekja til þess að meira fékkst af þorski á bilinu 65-80 cm. Nú sé meira af þorski stærri en 65 cm en mun minna af 20-65 cm þorski en var að meðaltali  á árunum 1985-2009.

Mest fékkst af þorski djúpt út af Norður- og Norðausturlandi, í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og á Halamiðum.  Heldur minna var af loðnu í mögum 40-60 cm þorsks en undanfarin ár, en svipað í 70-100 cm þorski. Talsvert fékkst af 1 árs loðnu í þorskmögum fyrir norðaustan land.

Lengdardreifing ýsunnar sýnir að fjöldi 25-40 cm ýsu er undir meðaltali en meira er af 45-55 cm ýsu, aðallega vegna  stóra árgangsins frá 2003. Fiskum í þeim árgangi hefur þó fækkað verulega frá síðustu mælingu. Fyrsta mæling á ýsuárganginum frá 2008 bendir til að hann sé lélegur.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert