Tekjubil breikkaði á árunum 2003 til 2006

Tekjubil á Íslandi virðist hafa breikkað árin 2003 til 2006 ef tekið er mið af þróun svokallaðra Ginistuðuls og fimmtungastuðls. Hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum hefur hins vegar haldist nær óbreytt á umræddu tímabili.  

Samkvæmt því sem fram kemur í Hagtíðindum Hagstofu Íslands virðist þróunin vera á þann veg að þeir tekjulægstu séu í svipaðri stöðu samanborið við miðgildið, eða meðalmanninn, en þeir tekjuhæstu séu á sama tímabili að hækka hlutfallslega meira en aðrir. 

Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands  er að þessu sinni greint frá niðurstöðum um lágtekjumörk og tekjudreifingu árin 2003 til 2006. Niðurstöðurnar eru fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC).

Það kemur fram að Gini-stuðullinn, sem sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal landsmanna á einkaheimilum, var 28 árið 2006. Stuðullinn er 100 ef einn maður er með allar tekjurnar en 0 ef allir hafa jafnar tekjur. Gini-stuðullinn hefur farið hækkandi með hverju árinu frá 2003 en þá var hann 24.

Þegar þau 20% landsmanna sem höfðu hæstar ráðstöfunartekjur eru borin saman við þau 20% sem höfðu lægstar ráðstöfunartekjur (fimmtungastuðull) árið 2006 kemur í ljós að tekjuhæsti hópurinn var með 3,9 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti.

Þegar litið er yfir tímabilið 2003 til 2006 er þróun fimmtunga¬stuðulsins á sama veg og þróun Gini-stuðulsins. Fimmtungastuðullinn hefur hækkað úr 3,4 árið 2003 í 3,9 árið 2006.

Af 29 Evrópuþjóðum var Ísland í 15 til 16 sæti þegar þjóðunum er raðað frá þeirri sem er með lægsta Gini-stuðulinn til þeirrar sem hefur hæsta stuðulinn árið 2006. Ísland var í 13. til 14. sæti yfir Evrópuþjóðirnar 29 þegar fimmtungastuðlinum er raðað frá þeim lægsta til þess hæsta. Gini-stuðullinn og fimmtungastuðullinn hafa hækkað meira hjá Íslandi en flestum öðrum Evrópuþjóðum.

Lágtekjuhlutfall á Íslandi með því lægsta 

Af 29 Evrópuþjóðum árið 2006 var Ísland ein þriggja þjóða sem var með lægsta lágtekjuhlutfallið. Þróun lágtekjuhlutfalls er ekki á sama veg og þróun fimmtunga- og Gini-stuðulsins þar sem Ísland hefur stöðugt verið ein þeirra þjóða sem eru með lægsta lágtekjuhlutfallið. Þessi þróun gæti bent til þess að á tímabilinu 2003 til 2006 hafi tekjubilið á Íslandi breikkað á þann veg að hátekjufólk hafi hækkað samanborið við meðalmanninn á meðan þeir tekjulægri eru í svipaðri stöðu.

Árin 2003 til 2006 voru tæplega 10% þeirra sem bjuggu á einkaheimilum fyrir neðan lágtekjumörk (at-risk-of-poverty) eins og þau eru skilgreind í lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Lágtekjumörkin voru 126.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling sem bjó einn árið 2006 en 264.500 kr. fyrir tvo fullorðna með tvö börn.

Lágtekjur algengastar hjá ungum og eldri konum

Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum árið 2006, var hæst hjá konum í aldurshópnum 18-24 ára, rúm 15%  og hjá konum 65 ára og eldri, tæp 19%. Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum var lægst hjá fólki í aldurshópnum 50-64 ára eða 5% til 6%.

Þeir sem eru með háskólapróf eru í minni hættu á að lenda undir lágtekju-mörkum eða 4,3% en þeir sem lokið hafa grunnskóla, 7,5% eða framhaldsskóla, 8%. Lítill munur er á þeim sem hafa grunnskólapróf sem hæstu gráðu og þeim sem hafa lokið framhaldsskóla hvað varðar tilhneigingu til að lenda fyrir neðan lágtekju¬mörk.

Hlutfallslega fleiri sem bjuggu einir eða voru einir með börn voru undir lágtekju¬mörkum en þeir sem bjuggu á annars konar heimilum. Það sama gildir um þá sem bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við þá sem bjuggu í eigin húsnæði.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert