Leiga Sinfóníuhljómsveitarinnar hækkuð

Tölvuteikninga af Tónlistarhúsinu
Tölvuteikninga af Tónlistarhúsinu mbl.is

Leigan sem Sinfóníuhljómsveit Íslands greiðir fyrir afnot af nýja Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu verður tvöfalt hærri en húsnæðiskostnaður sveitarinnar árið 2008. Framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar telur að aukin aðsókn og hærra miðaverð dugi langleiðina fyrir hærri leigu en að öðrum kosti þurfi ríki og borg að brúa bilið.

Samkvæmt rekstraráætlun Austurhafnar greiðir Sinfóníuhljómsveitin 101 milljón í leigu á ári (á verðlagi í október 2008). Í fyrra var kostnaður hljómsveitarinnar vegna húsnæðis 52 milljónir.

Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, segir að inni í leigugreiðslum hljómsveitarinnar fyrir Tónlistarhúsið sé ýmis kostnaður sem hljómsveitin beri nú, s.s. vegna miðasölu og sviðsmanna, sem sparist við flutninginn. Raunaukning útgjalda sé líklega um 40 milljónir.

Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að ríkið greiði 731,7 milljónir til reksturs hljómsveitarinnar og Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að greiða 115 milljónir, samtals nemur framlag opinberra aðila því 846,7 milljónum. Sértekjur hljómsveitarinnar, sem nánast eingöngu eru vegna miðasölu, eru áætlaðar 85,6 milljónir.

Þröstur vonast til að árið 2012 verði umhverfið þannig að aftur megi sækja styrki til einkaaðila. „Þannig að það er engin útópía að ímynda sér að það sé hægt að fara langleiðin með þetta með aukinni aðsókn og hærra miðaverði.“ Dugi það ekki til sé vonast til að ríki og Reykjavíkurborg taki þátt í auknum kostnaði. Þegar ákveðið var að ríki og borg tækju Tónlistarhúsið yfir var reyndar tilkynnt að samkomulagið væri miðað við að ekki þyrfti að koma til aukið framlag, umfram það sem var ákveðið á árinu 2004.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert