Viðskiptaráðherra skoðar niðurfærslu

Gylfi Magnússon  segist ætla að skoða tillögur Gísla Tryggvasonar talsmanns neytenda áður en hann tekur afstöðu til þeirra. Ráðherrann hafði líkt og fleiri í ríkisstjórninni slegið hugmyndir um flatan niðurskurð lána einstaklinga og fyrirtækja út af borðinu.

Gísli Tryggvason er skipaður af viðskiptaráðherra sem talsmaður neytenda. Hann sendi forsætisráðherra í gær tillögu um að taka beri öll neytendalán með veði í íbúðarhúsnæði eignarnámi og fela gerðardómi að leggja til niðurfærslu þeirra.  Gylfi sagðist síðdegis í gær vera nýbúinn að fá tillögurnar ásamt greinargerð í hendurnar og hann ætlaði að kynna sér þær vel. Við fyrstu skoðun virtust þær vera mjög svipaðar og tillögur um niðurfærslu sem komu fram hjá ýmsum fyrir kosningar og framsóknarmenn lögðu mikla áherslu á. Hann eigi því ekki von á því að þær komi á óvart. Gylfi var mjög mótfallinn tillögu framsóknarmanna um flatan tuttugu prósenta niðurskurð og segir það ekkert hafa breyst. Honum hafi skilist að Gísli útfæri þetta öðruvísi og ætli því að skoða það betur áður en hann tjái sig frekar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert