„Lausn finnst á sjávarútvegsmálum“

Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi í Brussel í síðustu viku að ef Ísland sækti um aðild að sambandinu væri hann þess fullviss að lausn fyndist á sjávarútvegsmálum sem mundi tryggja að fiskveiðum á Íslandi yrði stjórnað með sama hætti og gert hefði verið til þessa.

Þetta kom fram á blaðamannafundi, þar sem Borg kynnti skýrslu, svonefnda grænbók, um sjávarútvegsstefnu ESB. Þar kom m.a. fram að níu af hverjum 10 fiskistofnum í lögsögu bandalagsins væru ofveiddir. Framkvæmdastjórnin er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á veiðikvótum að íslenskri fyrirmynd og vísaði Borg til þess á fundinum.

Borg sagði að flytja yrði ákvörðun um stjórn fiskveiða á mismunandi svæðum í lögsögu bandalagsins nær svæðunum og íbúum þar. Erlendur blaðamaður spurði Borg hvort hann teldi að sjávarútvegsmál yrðu minni fyrirstaða en áður var talið í hugsanlegum viðræðum Íslands og ESB í ljósi þess að borið væri lof á fiskveiðistjórnun Íslands.

Borg svaraði að það væri rétt að ESB væri að taka upp ýmsar ráðstafanir sem norræn lönd á borð við Ísland og Noreg hefðu tekið upp, m.a. til að vinna gegn brottkasti.

„Ef Ísland ákveður að sækja um aðild þarf að semja um (sjávarútvegsmál) sem hafa til þessa verið viðkvæm. Ég get ekki sagt fyrir um hver niðurstaða slíkra viðræðna yrði en ég er viss um að ef Ísland ákveður að sækja um aðild... mun landið finna í framkvæmdastjórninni samningsaðila sem er reiðubúinn til að ræða með mjög jákvæðum hætti hvort hægt sé að finna lausn sem tryggir að framtíð íslenskra sjómanna verði svipuð og verið hefur til þessa, en það yrði að vera innan marka sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar.“

Borg sagði að Ísland myndi án efa geta lagt sitt til málanna við endurskoðun fiskveiðistefnunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert