Íslenskur fiskútflutningur ógnar norskum

Grillaður saltfiskur þykir víða mikið lostæti.
Grillaður saltfiskur þykir víða mikið lostæti. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Þrátt fyrir hið algjöra hrun í bankakerfi Íslands, mikið gengisfall og mikla óvissu, gengur íslenskum saltfiskverkendum betur en þeim norsku.

„Stór hluti af íslenskum saltfiskverkendum þénar nú peninga þrátt fyrir að landið gangi í gegnum fjármálakreppu sem er verri en kreppan í Tælandi árið 1997, og að minnsta kosti þrefalt verri en norska bankakreppan í lok 9. áratugarins,“ segir Björn Inge Bendiksen í viðtali við NTB í Noregi, en fjallað er um málið á vefútgáfu dagblaðsins Stavanger Aftenblad.

Í dag kynnti hann niðurstöður rannsóknar sinnar og Bjargar Helenar Nöstvold, á aðstæðum íslenskra og norskra saltfiskverkenda, en rannsóknin var unnin með viðtölum við atvinnurekendur í báðum löndum.

Hinir íslensku útflytjendur hafa miklu frekar en þeir norsku þurft að lækka sín verð, en þetta hefur líka veitt þeim forskot í samkeppninni við þá norsku. Íslensku fyrirtækin eru stór, að sögn þeirra Bendiksen og Nöstvold, og hafa fengist við alla fleti á saltfiskframleiðslunni. Þau njóta líka lengra veiðitímabils og geta komið fyrr inn á markaðinn og byrjað að selja á undan Norðmönnum.

Bendiksen segir Íslendinga ekki beinlínis stunda undirboð á markaðnum, en að þeir séu í aðstöðu til þess að þrýsta verðinu kröftuglega niður. Einstök íslensk fyrirtæki reikna með því að þetta ár komi örlítið betur út en meðaltalsár. Margir þeirra áttu sitt besta ár frá upphafi í fyrra, en Bendiksen segir að telja megi á fingrum annarrar handar þá norsku saltfiskverkendur sem skiluðu hagnaði í fyrra.

Áhrif fjármálakreppunnar eru á aðra hliðina jákvæð fyrir íslensku fyrirtækin, en á hina hliðina er allt fjárhagslegt umhverfi þeirra afar óstöðugt, að sögn Bendiksen. Gengisfall krónunnar hefur samkvæmt rannsókninni stuðlað að því að saltfiskverð hefur hækkað um 20% í íslenskum krónum talið, á meðan laun starfsfólks hafa bara hækkað um 5-6%.

Evrópskir neytendur vilja nú ódýrari vöru

„Það sem bjargar Íslendingum er að þeir eru mjög sveigjanlegir í sinni framleiðslu. Á heildina litið eru áhrifin þau að íslenskur fiskur er ódýrari, en samt áfram arðbær fyrir marga íslenska framleiðendur,“ segir Bendiksen.

Yfirleitt hefur íslenskur saltfiskur verið af meiri gæðum en sá norski. Þetta hefur haft þau áhrif að Íslendingar eru mun stærri á Spánarmarkaði fyrir saltfisk, en Norðmenn eru stærri á Portúgalska markaðnum. Á Spáni er atvinnuleysið hins vegar að nálgast 20% núna og neytendur eru að færa sig yfir í ódýrari vörur, bæði í íslenskum og norskum saltfiski.

„Samt sem áður hafa atburðirnir á Íslandi hingað til ekki haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir norskan saltfiskiðnað, með örfáum undantekningum. Líklega hafa Íslendingar gert sitt til að lækka verðin í Portúgal. Þeir eru að leita nýrra markaða og geta keppt við norska útflutninginn til Portúgal. Norskur útflutningur til Portúgal var áður tvisvar sinnum meiri en sá íslenski. En þetta gæti verið að breytast,“ segir Bendiksen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert