„Við viljum hafa fast land undir fótum“

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna miða vel og unnið sé af fullum krafti á ýmsum vígstöðvum. Hún vonast til þess að nýr stjórnarsáttmáli líti dagsins ljós um næstu helgi.

Spurð um gagnrýni þess efnis að stjórnarflokkarnir taki sér rúman tíma til viðræðna bendir Jóhanna á, að ríkisstjórn sé starfandi í landinu og unnið sé af krafti að brýnustu verkefnum. „Við ætlum okkur að starfa út þetta kjörtímabil og viljum því hafa fast land undir fótum. Þar fyrir utan vita allir að bil var á milli flokkanna að því er varðar Evrópumálin og engan skyldi undra að við þurfum að gefa okkur tíma til að ná niðurstöðu þar.“ Ekki sé óeðlilegt að viðræðurnar taki tvær til þrjár vikur.

„Við getum ekki tekið áhættu í samfélaginu við núverandi aðstæður," segir hún.  „Það verður enginn hægðarleikur að skera niður um 170 milljarða í ríkisfjármálunum á næstu tveimur til þremur árum og við getum ekki tekið áhættu með því að fara í gríðarlegar afskriftir sem hugsanlega gætu leitt til annarrar kollsteypu með hundraða milljarða útgjöldum sem þjóðin þyrfti að standa undir.“

Jóhanna hvetur fólk þó til að sýna stillingu. „Ég held að úrræðin sem við höfum þegar gripið til komi til með að duga en menn verða að hafa í huga að ýmsar aðgerðir hafa ekki ennþá komið að fullu til framkvæmda, svo sem hækkun á vaxtabótum og greiðsluaðlögunin. Ég heyri að fólk hefur áhyggjur af því að ekki sé hægt að framlengja frystinguna á myntkörfulánunum. Á móti kemur að hægt er að fara í greiðsluaðlögun sem þýðir að fólk borgar ekki meira en það gerði fyrir hrunið. Ég hvet fólk eindregið til að kynna sér úrræðin í stað þess að grípa til örþrifaráða.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert