Hafa ekki þurft að fjölga fólki

mbl.is/Þorkell

Þrátt fyrir fréttir af minni innflutningi hafa Samtök iðnaðarins (SI) ekki orðið vör við að fjölga hafi þurft fólki í framleiðslufyrirtækjum, að sögn Ragnheiðar Héðinsdóttur, forstöðumanns matvælasviðs hjá SI. „Ég vildi óska að ég gæti sagt að það vantaði fullt af fólki í matvælaiðnaðinn en svo er bara ekki, því miður,“ segir hún.

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var sagt frá því að innflutningur á mat og drykk hefði dregist saman um 26,8% í janúar-mars miðað við sama tíma í fyrra. Þá segir að aukin innlend sala rími við minnkandi innflutning.

Eftir bankahrunið í október varð samdráttur hjá bakaríum landsins en Ragnheiður segir þau þó aðeins hafa rétt við á ný. „Hins vegar er það svo að á móti hefur orðið samdráttur í dýrari afurðum, hvort sem er í kjöti eða bakkelsi,“ segir hún og bendir jafnframt á að fólki hafi fækkað talsvert á landinu. „Það hafa svo margir útlendingar flust burtu og það segir líka til sín á markaðnum.“ Ragnheiður tiltekur sérstaklega að neyslumynstur hafi breyst og fólk kaupi ódýrari kjötvörur frekar en fínustu bitana.

Ragnheiður upplýsir að SI hafi nýlega hringt út í fyrirtæki landsins og spurt hvort ráðið yrði í sumarstörf. „Og menn eru mikið að reyna að hagræða sumarfríum þess starfsfólks sem fyrir er og veigra sér við því að bæta við fólki. Það er miklu minna um það að menn ráði í sumarafleysingar í sumar,“ segir hún en tekur fram, að vissulega sé þetta þó misjafnt milli fyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert