Kvartað yfir hanagali

Í Vestmannaeyjum var kvartað til lögreglu vegna hanagals
Í Vestmannaeyjum var kvartað til lögreglu vegna hanagals mbl.is/RAX

Það eru ýmis mál sem rata til lögreglunnar. Í síðurstu viku var kvartað til lögreglu í Vestmannaeyjum vegna hana sem galaði í morgunsárið alla morgna þannig að ekki væri svefnfriður. Í samtali við eiganda hanans sagði hann að haninn galaði alltaf um kl. 7 í þeim tilgangi að reka hænurnar út úr hænsnakofanum.

Aðfaranótt 3. maí sl. var lögreglu tilkynnt um eld á svæði Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja, en eldur reyndist vera í bílhræi sem þar var. Slökkviliðið var kallað út og réð það niðurlögum eldsins á skömmum tíma. Lögreglu bárust upplýsingar nokkru eftir að eldsins varð vart, um þann sem þarna var að verki og var hann handtekinn undir morgun.

Við yfirheyrslu viðurkenndi maðurinn, sem er á þrítugsaldri, að hafa kveikt eldinn. Hann tengist ekki öðrum brunum sem hafa verið til rannsóknar að undanförnu. Málið telst að mestu upplýst.

Aðfaranótt 1. maí sl. var lögreglu tilkynnt um að skemmdir hafi verið unnar á girðingu fyrir utan Faxastíg 6b. Sást til tveggja dökkklæddra manna sem þarna voru að verki en þrátt fyrir leit lögreglu fundust þeir ekki. Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um þá sem þarna voru að verki eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Undir kvöld þann 27. apríl sl. var lögreglu tilkynnt um tvo unga menn sem voru að skjóta á hross með loft-skammbyssu. Þar sem greinagóð lýsing var á þessum mönnum fundust þeir fljótlega og viðurkenndi annar þeirra að hafa verið að skjóta á hrossin, samkvæmt dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert