Kvarta til ESA vegna orkuverðs

Borgarahreyfingin hefur sent beiðni til Orkustofnunar um að raforkuverð til álbræðslu verði gert opinbert. Auk þess hefur hreyfingin sent formlega kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, þar sem kvartað er yfir því að raforkuneytendur á Íslandi skuli ekki njóta sanngirni og gagnsæi við samanburð á orkuverði líkt og kveðið sé á um í tilskipun Evrópusambandsins.

Í tilkynningu frá Borgarahreyfingunni segir, að með þessu vilji hreyfingin beita sér fyrir því að almenningur og smærri fyrirtæki njóti sanngirni og sitji við sama borð og alþjóðleg stórfyrirtæki hvað varði nýtingu auðlinda.
Reglur Evrópuréttar um innri markað fjalla m.a. um viðskipti með raforku og veiti neytendum rétt til raforkukaupa á sanngjörnu og samanburðarhæfu verði.

Úr því að orkuverði til álfyrirtækja á Íslandi sé haldið leyndu og grunur leiki á að það sé einungis 1/8 af verði til neytenda  sé  ástæða til að ætla að orkuverð til neytenda sé ekki sanngjarnt og líklegt, að leynd yfir orkuverði til álbræðslu samræmist ekki reglum ESB/EES.

Sökum leyndarinnar sé í öllu falli illmögulegt að fjalla um rétt neytenda eins og kveðið er á um í tilskipuninni. Því hafi verið óskað eftir því við ESA að stofnunin kanni lögmæti þess að orkuverði til álbræðslu sé haldið leyndu og hvort að íslensk löggjöf hafi verið samræmd viðeigandi Evróputilskipun eins og til sé ætlast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert