Íslendingar áfram í haldi lögreglu

Einn þeirra sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald.
Einn þeirra sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag þrjá Íslendinga, sem eru grunaðir um stórfellt fíkniefnasmygl, til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Mennirnir tengjast smygli á 109 kg af fíkniefnum til landsins með skútu. Tveir voru úrskurðaðir í varðhald til 2. júní og einn til 29. maí nk. Þeir hafa allir kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Um var að ræða amfetamín, maríjúana, hass og nokkur þúsund e-töflur, sem var smyglað til landsins í belgísku skútunni Sirtaki.

Mennirnir þrír voru handteknir aðfararnótt 19. apríl sl. Einn við Höfn og tveir við Djúpavog. Þeir eru allir á þrítugsaldri og hafa komið við sögu lögreglu áður.

Grunur leikur á að mennirnir hafi farið á hraðskreiðum slöngubáti frá Djúpavogi og átt stefnumót við skútuna um 15-20 sjómílur suður af Papey.  Þeir sigldu síðan með fíkniefnin í land en skútan hélt af stað áleiðis í átt að meginlandi Evrópu.

Tveir Íslendingar og einn Hollendingur voru handteknir um borð í skútunni tæpum tveimur sólarhringum síðar en varðskip Landhelgisgæslunnar veitti henni eftirför. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald þar til á morgun en gera má ráð fyrir að krafa verði gerð um að varðhaldið verði framlengt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert