SF leggst gegn hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi

SF segir að ef fyrningarleiðin komist til framkvæmda muni hún …
SF segir að ef fyrningarleiðin komist til framkvæmda muni hún leiða til fjöldagjaldþrota í sjávarútvegi með ófyrirséðum afleiðingum. mbl.is/ÞÖK

Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva leggst eindregið gegn öllum tillögum og hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi eins og hún hefur verið kynnt í samstarfsyfirlýsingu þeirra flokka sem nú skipa ríkisstjórn Íslands. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.

Afstaða SF kemur fram í ályktun sem samtökin sendu frá sér í dag. Og er hún eftirfarandi:

„Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva leggst eindregið gegn öllum tillögum og hugmyndum í Samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi og innköllun á öllum fiskveiðiheimildum  á næstu tveimur áratugum.

Samtök fiskvinnslustöðva trúa því ekki fyrr en á reynir að stjórnvöld fari þessa leið, en framkvæmd fyrningarleiðar felur í sér að afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólksins verður kippt í burtu á fáeinum árum. Komist fyrningarleiðin til framkvæmda mun hún leiða til fjöldagjaldþrota í sjávarútvegi með ófyrirséðum afleiðingum fyrir starfsfólk fyrirtækjanna og þau sveitarfélög þar sem útgerð og fiskvinnsla  er burðarás atvinnulífsins.  

Sjávarútvegur gegnir nú á nýjan leik lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki í sjávarútvegi  hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum að verksvið margra þeirra nær í senn til  fiskveiða, fiskvinnslu og markaðs-setningu sjávarafurða.

Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á ríkisstjórnina að afturkalla  áformaða fyrningarleið í sjávarútvegi, en setjast þess í stað niður með fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi til þess að ræða þau viðfangsefni sem brenna mest á atvinnugreininni.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert