Lýsa yfir áhyggjum af fyrningarleið

Ísafjörður
Ísafjörður (C)Kjartan P. Sig kps@photo.is

Forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar lýsa yfir áhyggjum af fyrirhugaðri fyrningarleið aflaheimilda stjórnvalda í yfirlýsingu sem þau hafa sent frá sér.

„Yfirlýsing frá forseta bæjarstjórnar, formanni bæjarráðs og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.

 Mikið hefur verið rætt um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið undanfarin misseri, einkum í aðdraganda nýliðinna kosninga. Þar boðuðu núverandi ríkisstjórnarflokkar svokallaða fyrningarleið, sem gengur út á að innkalla aflaheimildir á 20 árum og þannig taka þær frá þeim, sem nú hafa þann afnotarétt. Fátt bendir til annars en að ný ríkisstjórn stefni ótrauð á fyrningarleiðina.

 Undirrituð lýsa yfir miklum áhyggjum af þessari leið, ekki síst vegna þess að hún mun koma harðast niður á þeim fyrirtækjum í Ísafjarðarbæ sem hafa á undanförnum árum styrkt sig verulega innan núverandi kerfis og tryggt þannig atvinnu og aukin verðmæti í bænum. Hagræðingin, sem útgerðinni sjálfri var ætlað að skila með því að sameina aflaheimildir á skip, var Vestfirðingum erfið á sínum tíma en fjórðungurinn hefur náð að styrkja stöðu sína umtalsvert á undanförnum árum. Þeirri uppbyggingu er nú stefnt í voða með fyrirhugaðri fyrningarleið.

 Nái fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þær koma harðast niður á þeim sem teljast mega nýliðar í sjávarútvegi, þ.e. einstaklingar og smærri fyrirtæki sem hafa síðustu ár verið að byggja sig upp í samræmi við lög og reglur. Þessi fyrirtæki eru skuldsett vegna nýlegra kvótakaupa og aðstöðusköpunar en höfðu allar forsendur til að spjara sig miðað við þær forsendur sem giltu fyrir efnahagshrunið. Innköllun aflaheimilda frá þessum fyrirtækjum mun ríða þeim að fullu á skömmum tíma.

 Við vekjum líka athygli á þeirri staðreynd að ýmis þjónustufyrirtæki í bænum munu fara halloka verði fyrningarleiðin farin því að sjávarútvegsfyrirtækin, bæði stór og smá, munu ekki hafa borð fyrir báru í framkvæmdum eða uppbyggingu þegar grundvöllurinn fyrir starfseminni rýrnar ár frá ári.

 Við innköllun aflaheimilda færast mikil verðmæti frá Vestfjörðum til umsýslu hins opinbera í Reykjavík. Við það missa Vestfirðingar hluta af sjálfsforræði sínu í atvinnumálum á sama tíma og boðaður er uppboðsmarkaður aflaheimilda þar sem óvíst verður hvort vestfirsk fyrirtæki standast samkeppni, einkum ef litið er til þess að þau þurfa að fjármagna núverandi aflaheimildir og útvega fjármagn til að leigja til sín á móti 5% skerðingu á hverju ári.

 Sveitarfélög og hagsmunasamtök víða um land hafa nú þegar lýst yfir efasemdum og áhyggjum af fyrningarleiðinni. Við tökum undir öll varnaðarorð sem fallið hafa í þessum efnum enda teljum við fyrningarleiðina óafturkræfa aðför að sjávarbyggðum landsins. Að sama skapi teljum við nauðsynlegt að sníða ýmsa vankanta af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, til að betri sátt megi ríkja um kerfið. Áður en hróflað verður við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þarf að fara vandlega yfir það hvaða afleiðingar breytingarnar hafi á hag þeirra sem lifa og starfa í sjávarútvegi. Við hvetjum því nýja ríkisstjórn til að hafa forgöngu um þá vinnu í góðri samvinnu við alla hlutaðeigandi.

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Svanlaug Guðnadóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert