Ísland á útsölu

Radisson Blu Hótel Saga.
Radisson Blu Hótel Saga.

Sérstaklega er mælt með ferðalögum til Íslands í bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes enda sé afskaplega ódýrt að sækja landið heim eins og sakir standa. Umfjöllunin er hluti af viðameiri úttekt á 15 ódýrum áfangastöðum.

Rakið er hvernig 95 prósent íslenska hlutabréfamarkaðarins hafi þurrkast út og geysileg fjármálabóla sprungið með tilþrifum.  

Þetta séu slæmar fréttir fyrir Íslendinga en góð tíðindi fyrir Bandaríkjamenn sem njóta þess nú að dollarinn sé 60 prósent meira virði en fyrir ári síðan.

„Fjármálahrunið hefur valdið mörgum erfiðleikum. En það hefur létt ferðamönnum lífið, það er víst,“ segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í viðtali við tímaritið.

Í viðtalinu kemur fram að hægt sé að fá flugfar til Keflavíkur frá New York fyrir 600 dali sé flogið í miðri viku og að þótt verð á bjór og hótelherbergjum sé ekki beinlínis lágt sé verðið helmingi lægra en í Lundúnum og Moskvu fyrir þá sem notast við Bandaríkjadalinn.

Fjallað er um Ísland undir millifyrirsögninni „Ísland á útsölu“ í þessari grein.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert