Eldur og vatn hjá slökkviliðinu

Búnaðurinn sem notaður var á æfingunni í dag en myndin …
Búnaðurinn sem notaður var á æfingunni í dag en myndin er frá því þegar búnaðurinn var fyrst tekinn í notkun. Júlíus Sigurjónsson

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í fjölbýlishús í Norðlingaholti laust fyrir klukkan þrjú í dag vegna vatnsleka eftir að vatnslögn fór í húsinu. Hafði þó nokkuð af vatni lekið milli hæða þegar dælubíll slökkviliðsins kom á vettvang.

Þá var slökkvilið kallað í tvígang út vegna sinubruna í Grafarvogi um hádegisbil í dag. Reyndist eldurinn minniháttar í bæði skiptin og gekk greiðlega að slökkva eldinn í bæði skiptin. Að sögn varðstjóra fjölgar sinubrunum árlega á þessum tíma, þegar sinan tekur að þorna eftir vorið og veturinn, en í allraflestum tilfellum er um bruna að mannavöldum að ræða. Lítil hætta sé á að sinan taki eld vegna sólarinnar, jafnvel ekki á heitum dögum eins og í dag.

Loks má geta þess að slökkviliðið æfði sinuslökkvun með þyrlu og sérstökum sleppibúnaði við Rauðavatn í dag. Æfingarnar voru haldnar í samvinnu við þyrluþjónustu sem starfar með slökkviliðinu. Á æfingunni var vatn sótt í Rauðavatnið með því að fylla tunnu sem hékk neðan úr þyrlunni, og því síðan sleppt í gróðurinn meðfram vatninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert