Munu elta peninga bankans

Kaupþing
Kaupþing Reuters

„Skilanefnd Kaupþings mun elta peninga bankans hvar sem þá er að finna, hvort sem þeir hafa farið í gegnum aflandsfélög eða ekki. Þá skiptir ekki máli hver á í hlut.“ Þetta segir Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður, sem á sæti í skilanefnd Kaupþings.

Á fréttavef breska blaðsins Observer í gær sagði að skilanefndin hefði stefnt fyrirtækjum tengdum Tchenguiz fyrir breskum dómstólum fyrir að hafa komið undan 180 milljóna sterlingspunda hagnaði af sölu á Somerfield, um 35 milljörðum króna. Jóhannes segir að frétt Observer sé ekki að öllu leyti rétt. Skilanefndin hafi ekki stefnt félögum Tchenguiz vegna þessa. Og engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt.

„Hið rétta í þessu máli er það að skilanefndin gekk að láni sem bankinn hafði veitt fyrirtækinu Oscatello Investments, en nefndin stefndi því félagi hér á Íslandi í febrúar síðastliðnum. Nú er kominn dómur í því máli hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í síðustu viku. Skilanefndin hefur yfirtekið þetta félag, en hlutirnir í því voru veðsettir bankanum. Oscatello var móðurfélag í ákveðinni samstæðu og í eigu Tchenguiz, og var Somerfield ein af eignum samstæðunnar.“

Jóhannes Rúnar segir að skilanefndin muni gera allt sem hún geti til að fylgja því máli eftir sem snýr að deilunni við Tchenguiz um ráðstöfun hagnaðarins af sölu Somerfield, eins og hún geri í öðrum málum. Þá staðfestir hann að ágreiningur Kaupþings og félaga Tchenguiz hafi verið til umfjöllunar fyrir dómstólum á Bresku jómfrúaeyjum, í London og Reykjavík, sem sé til marks um þann ásetning skilanefndarinnar að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að þeir peningar sem eru eign Kaupþings skili sér til kröfuhafa bankans.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert