Grunaður eggjaþjófur á ferð

Arnaregg eru eftirsótt í þröngum hópi safnara.
Arnaregg eru eftirsótt í þröngum hópi safnara. mbl.is/Golli

Erlendur maður, sem grunaður er um að vera eggjaþjófur, sást á ferli í grennd við hafarnarhreiður í Borgarfirði á sunnudag. Fuglaáhugamaður sem var við fuglaskoðun ræddi við manninn og lét lögreglu vita í framhaldinu, en þegar hún kom á vettvang var hann á bak og burt.

Aðdragandi málsins er sá að grunsemdir vöknuðu um annarlegan tilgang mannsins þegar hann kom til landsins á dögunum og var þá viðvörun send út til lögregluembætta um að þar gæti verið eggjaþjófur á ferð. Síðastliðinn sunnudag sá íslenskur fuglaáhugamaður til hans í grennd við arnarvarpsstað í Borgarfirðinum, og var hann, skv. heimildum mbl.is, nokkuð vígalegur með vöðlur, bát og fleira. Fuglaáhugamaðurinn gaf sig á tal við hann og lét svo lögreglu vita en þegar hún kom á vettvang var hann á bak og burt. Hann mun þó vera enn á landinu.

Lögreglan í Borgarnesi staðfestir að sést hafi til mannsins í Borgarfirðinum um helgina.

Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki vitað til þess að maðurinn hafi náð eggjum með sér, svo óljóst er hvort refsivert athæfi hafi verið framið. Örninn er enn á hreiðrinu, en þekkt er að menn hafi ýmis ráð til að dylja það ef þeir taka egg, t.d. að setja gerviegg undir fuglinn. Þar sem ekki er talið ráðlegt að trufla örninn á þessum viðkvæma tíma mun tíminn einn leiða í ljós hvort egg hans hafi fengið að vera óhreyfð í hreiðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert