Óttast ekki meirihlutaslit

Gunnar segir að ekki hafi borið skugga á samstarf Framsóknar …
Gunnar segir að ekki hafi borið skugga á samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í 19 ár. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, óttast ekki að það komi til slita meirihlutasamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bænum, vegna viðskipta bæjarins við fyrirtæki dóttur Gunnars. Hann segir að skýrsla endurskoðenda bæjarins muni hreinsa sig og dóttur sína af ásökunum pólítískra andstæðinga sinna.

Bæjarmálaráð framsóknarmanna í Kópavogi fundaði í kvöld vegna málsins og að sögn oddvita þeirra, Ómars Stefánssonar, voru skiptar skoðanir fundarmanna um hvort málið krefðist samstarfsslita við sjálfstæðismenn. Gunnar segist ekki getað ímyndað sér að sú verði raunin. „Menn bíða bara eftir skýrslu endurskoðenda bæjarins og þá kemur þetta allt í ljós og þá verð ég og hún [dóttir Gunnars] hreinsuð af þessum ásökunum sem eru í pólítískum tilgangi gerðar."

Fram hefur komið að bærinn átti viðskipti við fyrirtæki dóttur hans sem námu 50 milljónum á tíu árum og virðist umfang viðskiptanna hafa komið framsóknarmönnum á óvart. „Inn í þessum tölum er virðisaukaskattur, undirverktakar og allt saman, þ.a ég veit ekki hvað þetta er hátt í raun," segir Gunnar um þetta. „Það væri gaman að sjá hvað aðrir eru með í viðskipti hjá bænum. Ég hef ekki haft milligöngu um viðskipti við þetta fyrirtæki þannig að mér er ekki kunnugt um þau öll."

Ákveðið var á fundi bæjarmálaráðs Framsóknar í kvöld að fulltrúaráð flokksins tæki málið upp þegar endurskoðendaskýrslan liggur fyrir og ákveða framhaldið. Gunnar segist ekki geta dæmt um þá ólgu sem kann að vera innan bæjarmálaráðsins, enda eigi hann þar ekki sæti. „En við erum búin að vera í mjög farsælu samstarfi í 19 ár og ekki borið skugga þar á. Ég átta mig ekki á að slíkt sé að koma upp núna út af máli sem pólítískir andstæðingar meirihlutans eru að reyna að þyrla upp. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík fyrirspurn kemur fram, þetta er alla vega í þriðja skipti og það er alltaf verið að spyrja um sama málið."

En óttast hann ekki að þetta geti sett strik í reikninginn varðandi samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi?

„Nei, það óttast ég ekki," svarar Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert