Brá að heyra í syninum

Herdís SH
Herdís SH mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Sonur minn var annar mannanna um borð,“ segir nýi þingmaðurinn Ásbjörn Óttarsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Nesvers frá Rifi á Snæfellsnesi. Syninum var bjargað ásamt öðrum um borð í Núp á sjöunda tímanum í morgun eftir að kviknaði í bátnum sem þeir voru á, Herdísi SH 145, upp úr klukkan fjögur í nótt.

Ásbjörn segir vont að missa annan bát útgerðarinnar. „En það er nú fyrir öllu að fá þá heila heim. Við horfum ekki í vélar og eignir í svona málum.“ Báturinn var tryggður. „Ég held að það sé nú ekki merkileg trygging enda skiptir það ekki nokkru máli.“

Ásbirni var brugðið þegar sonurinn tvítugur hringdi heim í nótt til að tilkynna um hrakfarirnar. „Þeir eru nú símalausir og allslausir enda brann allt.“ Mennirnir voru úti á dekki að skaka þegar eldurinn kom upp í lúkari sex tonna bátsins.

Þrátt fyrir ungan aldur, báðir um tvítugt, voru þeir vanir á sjó. Þeir hugðust róa frá Tálknafirði og höfðu farið einn túr þegar báturinn brann. Mennirnir eru í skýrslutöku hjá lögreglunni á Vestfjörðum, Patreksfirði. Búist er við að þær standi fram að hádegi.

Ásbjörn ætlar ekki að stöðva sjómennsku sonarins þrátt fyrir áfallið nú. „Nei, það ætla ég ekki að gera.“

Ásbjörn Óttarsson.
Ásbjörn Óttarsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert