Undrast dráttarvexti á eigin lífeyri

Karlmaður sem missti skuld vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda í lögfræðiinnheimtu undrast að þurfa að greiða öll þau gjöld sem leggjast á skuldina vegna eigin lífeyris á efri árum. Á innheimtubréfi frá Intrum stendur að málið sé orðið alvarlegt, ýmsar ástæður geti verið fyrir því að hann skuldi iðgjaldið „en staðreyndin er bara sú að þú ert að tapa peningum á þessu.“

Maðurinn skuldaði tæpar 66 þúsund krónur en dráttarvextir, ítrekunargjöld og kostnaður við innheimtuna hafa hækkað reikninginn í ríflega 100 þúsund krónur. Dráttarvextirnir eru rúmar 6.800 krónur, kostnaður kröfuhafa 1.600 krónur og innheimtuþóknun rúmar 27 þúsund krónur. Maðurinn hafði ekki greitt iðgjaldið í eitt ár.

„Mér finnst þetta rosalega skrýtið. Þetta er minn lífeyrissjóður,“ segir maðurinn. Honum hafi verið sagt að hægt væri að bjóða upp eignir hans fyrir lífeyrissjóðsgreiðslunni. „Ég trúi því ekki. Getur lífeyrissjóðurinn boðið upp eign mína fyrir 65 þúsund kall?“ Maðurinn segir að greiðslunnar hafi verið krafist af söluhagnaði vegna hlutabréfa eftir að hann skilaði skattskýrslu sinni.

Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, bendir á að skylda sé að greiða af öllum launum í lífeyrissjóð. Þá skipti engu máli hvort menn séu sjálfstætt starfandi eða launþegar.

„Það er misskilningur að halda að eðlismunur sé á því að vera sjálfstætt starfandi eða reka fyrirtæki undir eigin kennitölu.“ Iðgjöld séu einungis lögð á laun og sé rétt að iðgjaldið hafi lagst á söluhagnað hlutabréfa verði það leiðrétt.

„Stundum kemur fyrir að menn gera skattskýrslur sínar ekki rétt. Séum við að innheimta iðgjöld vegna hlutabréfa erum við að innheimta af röngum stofni, þá hefur hann ekki gert skattskýrslu sína rétt og við leiðréttum það strax og við fáum leiðrétta skýrslu,“ segir Sigurbjörn.

Hann bendir á að Söfnunarsjóðurinn hafi ákveðið hlutverk samkvæmt 6. grein laga nr. 129 frá 1997 sem sé það að innheimta iðgjöldin. „Í reglugerð frá fjármálaráðuneytinu er ákveðin aðferðafræði sem að við eigum að beita. Við beitum þeirri aðferðafræði út í eitt.“

Sigurbjörn segir að hópur fólks greiði ekki iðgjöld í lífeyrissjóði þrátt fyrir að það sé lögbundið. Þá verði að grípa til hefðbundinnar innheimtu. Sjóðurinn reyni sjálfur að innheimta gjöld í nokkuð marga mánuði, en takist ekki að innheimta sé skuldin send Intrum til innheimtu - því þar geti skuldarar samið um skuld sína. Geri þeir það ekki fari skuldin í lögfræðiinnheimtu.

Spurður hvort lífeyrissjóðurinn hafi boðið upp eignir vegna vangoldinna iðgjalda svarar hann: „Við göngum eins langt og okkur ber að gera. Það getur ýmislegt fylgt því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert