Fréttaskýring: Tafir á uppskiptingu milli nýju og gömlu valda titringi

Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins.
Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins. mbl.is/Kristinn

Fjármálaráðuneytið fer formlega með ábyrgð á því ferli, en bæði forsætisráðuneytið og Fjármálaeftirlitið (FME) koma einnig að því. Heimildir Morgunblaðsins herma að enginn þessara aðila vilji taka við stýrinu í ferlinu og að það valdi miklum töfum á því að hægt verði að gera upp við kröfuhafa bankanna.

Þá er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) sagður vera orðinn óþolinmóður vegna tafanna. Samkvæmt samkomulagi AGS við íslensk stjórnvöld átti að vera búið að klára réttlátt uppgjör við kröfuhafana og leggja nýju bönkunum til nýtt eigið fé fyrir lok febrúar síðastliðins. Síðan eru liðnir þrír mánuðir og ljóst að uppskiptingin mun ekki klárast fyrr en í fyrsta lagi seint í júní, enda hefur formlegum viðræðum milli stjórnvalda og kröfuhafa verið frestað fram að þeim tíma. Nýju bankarnir þrír hafa verið að vinna að fimm ára viðskiptaáætlunum sem eiga að vera hluti af viðræðunum. Kergja er innan þeirra vegna þess að stjórnvöld tala ekki opinskátt um að þau vilji að erlendu kröfuhafarnir eignist hlut í nýju bönkunum, hvort sem það yrði með beinni hlutafjárþátttöku eða skuldabréfi sem væri ígildi eigin fjár.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hótaði Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins, að hætta störfum í síðustu viku vegna óánægju með hvernig mál hafa gengið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur hann lýst óánægju sinni með það hversu óskýr pólitísk stefna hefur verið í málefnum nýju bankanna, sem enn hafa ekki fengið eiginfjárinnspýtingu frá ríkinu. Hefur Josefsson einnig talið að ekki sé rétt haldið á málum þeirra fyrirtækja sem bankarnir hafa tekið yfir. Josefsson hefur talað fyrir nauðsyn þess að vera með sjálfstætt eignaumsýslufélag, sem starfar með bönkunum, en bankarnir hafa sjálfir reynt að greiða úr málefnum viðskiptavina sinna, þvert á það sem hann lagði til. Áhyggjur Josefsson beinast meðal annars að því að upp geti komið lagaleg óvissa í ljósi þess að aðskilnaður nýju og gömlu bankanna er ekki orðinn að veruleika enn. Bankarnir séu á hálum ís þegar kemur að yfirtöku á fyrirtækjum sem eru í rekstri á samkeppnismarkaði án þess að aðskilnaðurinn hafi formlega farið fram. Auk þess hefur Josefsson lýst því yfir að „lítil þekking“ virðist vera á því innan nýju bankanna hversu erfið vandamál þeir glími við.

Josefsson hvass á fundum

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa embættismenn innan ráðuneyta og stofnana, sem hafa setið fundi með Josefsson, ekki verið honum sammála um öll atriði. Auk þess hefur það komið á óvart hversu „hvass“ hann hefur verið, sérstaklega eftir því sem á hefur liðið. Einn heimildarmanna Morgunblaðsins, sem jafnframt hefur setið með honum vinnufundi, sagði að Josefsson vissi augljóslega margt um bankastarfsemi en ætti það til að „æsa sig fullmikið“ þegar málefnin væru til umfjöllunar. Ekki væru allir vanir slíkri hreinskilni þegar kæmi að vinnu sem þessari innan stjórnsýslunnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert