Fréttaskýring: Síðasta gengisfrystingartilraun gekk ekki

Meðal þeirra hugmynda sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa rætt í viðræðum um nýja þjóðarsátt, eða svonefndan stöðugleikasáttmála, er að festa gengi krónunnar. Hefur verið miðað við að gengisvísitalan, sem nú er í um 227 stigum, fari niður í 160-170 stig, og evran gæti farið úr 177 krónum í um 125. Yrði það á svipuðu róli og gengisvísitalan var mánuðina fyrir bankahrunið í haust.

Hugmyndinni um fast gengi er ætlað að koma til móts við fyrirtæki og heimili sem skulda stórar fjárhæðir í erlendri mynt. Sömuleiðis að auðvelda bönkunum að bregðast við gengisáhættu sem er á milli eigna þeirra og skulda, líkt og fram kom í fréttaskýringu á fréttavef Morgunblaðsins í fyrradag.

Kostir og gallar

Kostirnir við fastgengisstefnu eru taldir þeir helstir að auka megi verðstöðugleikann, draga úr gengisáhættu og greiða fyrir viðskiptum á milli landa. Gallarnir geta verið þeir að ef peningastefna viðkomandi ríkis er ótrúverðug, er hætta á spákaupmennsku fjárfesta og árásum þeirra á gjaldmiðilinn.

Gerð var tilraun til að festa gengið eftir bankahrunið. Gengi krónunnar hafði þá verið fljótandi frá árinu 2001, þegar ný lög voru sett um Seðlabankann. Í kjölfar neyðarlaganna tilkynnti bankinn þann 7. október sl. að bankinn myndi hefja viðskipti með krónur á millibankamarkaði á gengi sem miðaði við vísitölu upp á 175 stig. Fljótlega kom í ljós að þetta hélt ekki, tvöfalt gengi myndaðist þar sem mikill munur var á gengi krónunnar í viðskiptum á heimamarkaði og erlendis. Sama dag hætti bankinn við þessa tilraun.

Fastgengi með fellingum

Haft var eftir Sigurði Snævarr hagfræðingi í Morgunblaðinu í október sl., sem ritaði bókina Hagsaga Íslands, að lengst af í hagsögu Íslendinga hefði það ekki verið vandkvæðum bundið fyrir stjórnvöld að fastsetja gengið. Á árunum 1960 til 1990 voru fjármagnsviðskipti við útlönd alfarið á vegum ríkisins, skammtímalán bönnuð, langtímalán takmörkuð og gengið fellt margsinnis til að rétta af stöðu útflutningsgreina, einkum sjávarútvegsins. Með samkomulaginu um EES, sem tók gildi árin 1991-1995, voru tekin upp frjáls viðskipti með fjármagn. Seðlabankinn ákvað gengið eftir sem áður en tók einnig að sér að verja það. Þetta gilti til 2001, þegar fljótandi gengi var komið á.

Ómögulegt að verja gengið

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ef gengið verði fest þá þurfi einhver að greiða lækkunina. Engir gjaldeyrisvarasjóðir séu til staðar og því sé fastgengi ekki góð hugmynd við núverandi aðstæður. Um helmingur af 600 milljarða króna innistæðum erlendra eigenda geti farið úr landi. Bendir Tryggvi Þór á að gjaldeyrisvaraforðinn sé nú rúmir 400 milljarðar króna. „Það er ekki nokkur möguleiki á að verja þetta gengi,“ segir hann og bendir ennfremur á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láni ekki löndum til að fjármagna fjármagnsflótta.

Tryggvi Þór segir fastgengisstefnuna margsinnis hafa verið prófaða í hagsögunni, bæði hér á landi og annars staðar, og aldrei tekist sem skyldi, sérstaklega við þær aðstæður sem Íslendingar búa við í dag. Eina lausnin sé að koma með áætlanir í ríkisfjármálum til næstu þriggja ára og ljúka endurreisn bankanna. Að því loknu sé hægt að afnema gjaldeyrishöftin og byggja upp trúverðugleika á íslensku efnahagslífi fyrir fjárfesta.

Ekki lausn til skamms tíma

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segist ekki geta mælt með fastgengisstefnu sem skammtímalausn við þessar aðstæður. Með núverandi gjaldeyrisforða Seðlabankans og lítið innstreymi gjaldeyris sé engin von til að halda genginu föstu. Hins vegar finnst honum koma til greina að skoða þetta sem framtíðarlausn.

„Ef við förum í aðildarviðræður við ESB, og stefnum að því að ganga inn og taka upp evru, þá förum við í fastgengi gagnvart evru. Mér finnst fyllilega koma til greina, ef við værum byrjuð í þessu ferli, að fá ESB og Seðlabanka Evrópu til að styðja okkur við að ná tökum á gjaldeyrismálum og aflétta gjaldeyrishöftum. Það er eitt af því sem þarf til að geta uppfyllt skuldbindingar EES,“ segir Gylfi en gjaldeyrishöftin byggjast á undanþágu frá reglum EES um frjálst flæði fjármagns. „En það er vonlaust að taka núna upp fastgengisstefnu, sérstaklega ef það á að vera á hærra gengi en verið hefur á markaði. Enginn gjaldeyrisforði er til þess. Það myndi enda með ósköpum, eins og í síðustu tilraun sem entist ekki daginn,“ segir Gylfi.

Í hnotskurn
» Til að festa gengið þarf Seðlabankinn að fara inn á gjaldeyrismarkaðinn og kaupa krónur í miklum mæli á föstu gengi.
» Gjaldeyrisforði Seðlabankans er nú rúmir 400 milljarðar króna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert