Forsetahjónin á Kýpur

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Eggert

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka í kvöld þátt í setningarathöfn Smáþjóðaleikanna sem haldnir eru á Kýpur.

Ríflega 170 Íslendingar taka þátt í leikunum: íþróttamenn, þjálfarar, dómarar, fararstjórar og forystufólk Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Auk Íslands og Kýpur taka Andorra, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Maríno þátt í Smáþjóðaleikunum sem haldnir eru annað hvert ár. Íslendingar keppa í frjálsum íþróttum, sundi, fimleikum, júdó, körfuknattleik, borðtennis, blaki, strandblaki, siglingum, tennis og  skotíþróttum.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands bauð forsetahjónunum að sækja leikana en þau munu fylgjast með keppni í fjölmörgum greinum. Forsetinn er verndari ÍSÍ.

Ólafur Ragnar mun einnig eiga fund með Dimitris Christofias, forseta Kýpur á fimmtudag. Þá mun hann eiga fundi með ýmsum öðrum ráðamönnum landsins og kynna sér nýtingu hreinnar orku á Kýpur.

Fyrir nokkrum árum afhenti Ólafur Ragnar Kýpverjum alþjóðleg orkuverðlaun fyrir að vera sú þjóð sem á tilteknu árabili náði mestum
árangri í að auka hlutfall hreinnar orku í orkubúskap sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert