Melgresi til varnar höfn

Vélar Landgræðslunnar hafa farið ótalda kílómetra um sandana. Búið er …
Vélar Landgræðslunnar hafa farið ótalda kílómetra um sandana. Búið er að sá í 350 hektara og eitt ár eftir. mbl.is/Helgi Bjarnason

Starfsmenn Landgræðslunnar eru í miklu og krefjandi verkefni á söndunum upp af Bakkafjöru. Þeir hafa tekið að sér að græða upp svartan foksand til að verja mannvirki við Landeyjahöfn og vegfarendur um hafnarveginn fyrir sandfoki. Rok og fínn sandur er ekki eina vandamálið því vatn situr þar uppi yfir veturinn og árnar flæmast um. Landgræðslumenn eru bjartsýnir um að sandfok verði að mestu stöðvað í júlí á næsta ári þegar fyrirhugað er að taka höfnina í notkun.

Landgræðslan hefur unnið á Landeyjasandi í rúm fimmtíu ár, með friðun lands fyrir búfjárbeit og sáningu. Tókst að hefta jarðvegseyðingu og ná að græða upp hluta þess sem tapaðist. Hins vegar hafa fyrri tilraunir til uppgræðslu á þeim hluta sandsins sem græða þarf upp vegna hafnarinnar skilað takmörkuðum árangri. „Vatnið sem lá yfir stórum hluta svæðisins yfir veturinn hefur gert uppgræðslu erfiða. Þegar þessi svæði þorna upp á sumrin verður gríðarlegt sandfok,“ segir Gústav Ásbjörnsson, verkefnisstjóri hjá Landgræðslunni.

Kerfi varnargarða

Markarfljótið hefur flæmst um sandinn og finnur sér sífellt nýja farvegi. Þá hafa Álarnir sem í það renna ekki haldist í farvegi.

Því var eitt mikilvægasta atriðið í áætlun Landgræðslunnar við uppgræðslu beltis til að verja mannvirki við Landeyjahöfn og vegfarendur að veita vatninu frá. Það er gert með því að byggja mikla varnargarða til að halda Markarfljóti og Álunum í farvegi. Hluti framkvæmda við höfnina er að byggja landgarða frá brimvarnargörðunum og að varnargörðunum við Markarfljót. Það heldur sjónum frá. Þannig verður til samtengt garðakerfi um allt framkvæmdasvæðið. Þá hefur Landgræðslan sett upp fokgirðingar á uppgræðslusvæðinu. Þær safna að sér sandi og hækka landið og halda vatninu frá.

Eftir verður vatn á afmörkuðum svæðum og veldur síður foki. Gústav segir að þótt það sé ekki markmið í sjálfu sér, megi búast við því að þar myndist votlendi í framtíðinni. Þannig land sé sterkt og gott og styðji uppgræðsluna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert