Tæpt að þyrlan kæmist

Þyrlan kemur úr sjúkrafluginu í gærmorgun.
Þyrlan kemur úr sjúkrafluginu í gærmorgun.

„Það má segja að það sem bjargaði okkur sé hvað Landhelgisgæslan er skipuð einvalastarfsmönnum sem eru þarna í hugsjónarvinnu,“ segir Georg Lárusson, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar.

Leita þurfti til starfsmanna sem voru í fríi og eins sem sagt hafði verið upp störfum þegar þyrla Gæslunnar, TF-LÍF, sótti 67 ára gamla konu kl. 2:35 í fyrrinótt um borð í farþegaskip sem statt var um 85 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum.

Reglan hjá Gæslunni hefur verið sú að tvær þyrluvaktir séu til staðar hverju sinni til að sinna útköllum sem þessum, en vegna samdráttar hefur starfsfólki verið fækkað og því ekki hægt lengur að halda úti tveimur vöktum alla daga, allan sólarhringinn, að sögn Georgs.

Útkallið í fyrrinótt hitti einmitt á þennan veika punkt. „Ef ekki hefði náðst í varavakt þessa nótt hefði konan sennilega ekki verið sótt og ég veit ekki hvað hefði orðið um hana, því hún var illa haldin,“ segir starfsmaður Landhelgisgæslunnar sem ekki vill koma fram undir nafni.

Starfsmenn uppi við vegg

Hann segir mikla óánægju ríkja meðal áhafnanna vegna þessa starfsumhverfis, að kalla þurfi til frívaktarmenn með engum fyrirvara vegna undirmönnunar. „Það er verið að setja menn í algjöra klípu, stilla þeim upp við vegg sem er eitthvað sem þeir eiga alls ekki skilið.“

Georg Lárusson játar því að þetta sé í raun skólabókardæmi um hvernig kerfið hefur veikst vegna skerðingar. Í fyrrinótt hefðu málin hæglega getað farið svo að ekki hefði verið hægt að sinna útkallinu. „Já, það hefði alveg getað orðið. Þarna náðist að fá menn sem voru í fríum, þeir stukku til og keyrðu um miðja nótt í bæinn svo þetta má þakka hollustu starfsmanna. Sú staða getur auðvitað komið upp að þeir séu hvergi nálægir þegar við eigum bara eina vakt og þá er úr vöndu að ráða. En við reiknum með að geta haldið þessu nánast óskertu alla jafna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert