Fréttaskýring: Kjaramálin í föstum hnút í Karphúsinu

Oft er stíft fundað í Karphúsinu.
Oft er stíft fundað í Karphúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil óvissa er um framhald viðræðna viðsemjenda á vinnumarkaði um launahækkanir bæði á almenna vinnumarkaðinum og hjá ríki og sveitarfélögum. Ekki er búist við að reynt verði að halda viðræðum um launamálin áfram fyrr en undir lok vikunnar.

Stéttarfélög og landssambönd funda þessa dagana og fram á fimmtudag hvert fyrir sig með sínu baklandi og leggja mat á stöðuna. Flestum ber saman um að ef ekki næst samkomulag muni Samtök atvinnulífsins segja upp gildandi kjarasamningi.

Allir samningar lausir í sumar?

Allir samningar á almenna vinnumarkaðinum verða þá lausir líkt og hjá opinberum starfsmönnum.

Farið var yfir málin á formannafundi í Starfsgreinasambandinu í gær. Þar kom fram hörð gagnrýni á tilboð Samtaka atvinnulífsins sem ekki fallast á að 13.500 kr. hækkunin komi öll til greiðslu 1. júlí. Skoðanir voru þó skiptar, sumir vildu taka mjög harða afstöðu þótt það þýddi að samningar slitnuðu sundur en aðrir vildu að reynt yrði eitthvað áfram að ná þessu saman. Var ákveðið að formenn allra aðildarfélaganna 23 færu heim í hérað og funduðu með samninganefndum félaganna þannig að formleg afstaða hvers félags til þess hvort viðræðunum skuli haldið áfram lægi fyrir um hádegi á föstudag.

Stjórn Kennarasambandsins, stjórnir aðildarfélaga og samninganefndir kennara ræddu einnig næstu skref á fundi síðdegis og sömu sögu er að segja af öðrum félögum og samböndum launafólks sem hafa boðað samninganefndir og trúnaðarráð til funda. Kjaraviðræðurnar, sem eiga að leggja grunn að stöðugleikasáttmálanum svonefnda, hanga því á bláþræði. „Það er mjög þungt undir fæti,“ sagði gamalreyndur verkalýðsforingi um miðjan dag í gær.

Ágreiningurinn milli atvinnurekenda og ASÍ-félaganna snerist fyrst og fremst um tímasetningar launahækkana. Samninganefndir ASÍ og SA gengu frá samkomulagi í vetur um að fresta launahækkunum sem áttu að koma til 1. mars til 1. júlí. Samtök launafólks hafa ekki viljað falla frá því að umsamdar hækkanir komi til framkvæmda 1. júlí og 1. janúar. Atvinnurekendur vildu hins vegar að helmingur krónutöluhækkunarinnar kæmi til 1. júlí en öðrum hækkunum yrði frestað þar sem atvinnulífið gæti með engu móti staðið undir þeim við núverandi aðstæður.

Ef samningarnir losna fer samningsumboðið aftur til landssambanda og einstakra félaga. Þau þurfa þá að hefja undirbúning að kröfugerð, gerð viðræðuáætlunar o.s.frv. til endurnýjunar samninga í sumar.

Þrátt fyrir að viðræður í launamálum séu í biðstöðu halda vinnuhópar áfram fundahöldum í Karphúsinu, fara yfir ríkisfjármálin og efnahags- og atvinnumálin og ætla að halda áfram út vikuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert