„Auðvitað bregður manni“

mbl.is/Reynir

„Auðvitað bregður manni,“ segir Karl Einar Óskarsson, sem er annar mannanna sem voru í hafnsögubátnum Auðunni, sem sökk í Sandgerðishöfn í dag. Lóðsinn tók þátt í því að koma togaranum Sóleyju Sigurjóns GK 200 á flot, sem strandaði í innsiglingunni í höfninni í morgun.

Karl Einar, sem var uppi á dekki þegar bátnum hvolfdi, segist hafa haft meiri áhyggjur af félaga sínum, sem var inni í stýrishúsinu, en sjálfum sér. „Ég var alveg á fríum sjó. Ég hafði mestar áhyggjur af hinum [Aðalsteini Björnssyni] sem var inni.“ 

Hann segir að atburðarrásin hafi verið hröð. „Þegar ég sá hvernig var þá bara gerði ég mig kláran til þess að hlaupa upp síðuna þegar hann færi á hliðina,“ segir Karl Einar.

Hann segir björgunarsveitarmennina hafa staðið sig eins og hetjur. Þeir hafi verið eldsnöggir að ná sér upp úr sjónum og greinilegt að allar æfingarnar hafi skilað sér. „Það fyrsta sem ég gerði, þegar þeir komu strákarnir, þá sagði ég þeim það að við hefðum verið tveir. Ég lét þá alveg vita það. Og þegar honum [Aðalsteini] skaut upp, þá heyrði ég að hann sagði það sama,“ segir Karl Einar og hlær.

Spurður út í það hvers vegna bátnum hvolfdi segir Karl Einar að togarinn hafi farið á mikla ferð um leið og hann losnaði frá strandstað. „Þegar hann fer á þessa rosa ferð þá snýr hann spottanum, sem við áttum að vera með í ákveðnum tilgangi, niður. Við höfðum engan tíma eða neitt til að losa okkur við hann eða neitt,“ segir Karl Einar.

Karl Einar slapp með skrekkinn en Aðalsteinn hlaut minniháttar áverka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert