Þrýstingur á Umhverfisstofnun vegna erfðabreytts byggs

Erfðabreytt byggkorn á að rækta til að framleiða prótein til …
Erfðabreytt byggkorn á að rækta til að framleiða prótein til notkunar í lyfjagerð og iðnaði. Jim Smart

Þrýst er á Umhverfisstofnun (UST) og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í máli ORF Líftækni, sem sótt hefur um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í sumar. Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Vottunarstofan Tún, Náttúrulækningafélag Íslands, Landvernd og samtökin Slow Food berjast gegn leyfinu og hvetja til undirskrifta og bréfasendinga á netinu.

Þá eru átök um málið innan háskólasamfélagsins. Þar virðist hið gagnstæða vera upp á teningnum, þar sem þunginn virðist frekar vera í því að mæla  með leyfisveitingunni til ORF Líftækni.

Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, reið á vaðið og skrifaði ráðherra og UST opið bréf á dögunum og lagðist gegn leyfisveitingunni. Gagnrýndi hún undirbúning ákvörðunarinnar þar
harðlega, m.a. stuttan kynningartíma, takmarkað aðgengi að gögnum, öryggi á tilraunareitum, úrelta löggjöf og margt fleira.

Bréfinu svöruðu Ólafur S. Andrésson prófessor og Zophonías Jónsson dósent, við líf- og umhverfisvísindadeild, og Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild. Segja þeir að margar rangfærslur og alvarlegur misskilningur um líf- og erfðafræðileg efni séu í bréfi Kristínar Völu. Svara þeir þar mörgum atriðum sem hún viðrar við ráðherrann og UST. Kristín svaraði bréfi þremenninganna og sagði það að mestu útúrsnúninga.

Þá talaði Áslaug Helgadóttir, forseti auðlindadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, máli ORF í innsendri grein í Morgunblaðinu í gær. Einnig skrifaði Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, bréf, þar sem hann lýsti eindregnum stuðningi við umsóknina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert