Allar forsendur fyrir lækkun vaxta

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að það ættu að vera forsendur fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans til að ákveða annan vaxtafundardag á næstunni en nefndin mun að óbreyttu tilkynna næstu ákvörðun sína um vexti 2. júlí.

Jóhanna sagði þetta eftir að Illugi Gunnarsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði spurt hana hvernig á því stæði, að Seðlabankinn  teldi sig ekki geta lækkað stýrivexti þótt forsendur um gengisþróun og verðbólgu virðist ekki því til fyrirstöðu. 

Jóhanna sagðist geta tekið undir, að stýrivaxtaákvörðun bankans í gær hafi valdið miklum vonbrigðum.  Allar forsendur ættu að vera fyrir því að lækka vexti frekar og peningastefnunefnd væri fullkunnugt um, að vinna við ríkisfjármálin á góðu skriði. Það hefði  því ekki átt að koma í veg fyrir að vextir lækki.

Hún sagði að væntanlega í næstu viku yrðu settar yrðu fram tillögur um aðgerðir í ríkisfjármálum. Síðar í júní yrði gefin út  skýrsla um hvernig tekið verði á halla ríkissjóðs á næstu árum.

Jóhanna sagði að því ættu að geta verið forsendur fyrir peningastefnunefnd að ákveða annan vaxtaákvörðunardag en gert hafi verið. Nefndin hefði boðað næstu ákvörðun 2. júlí en ekki væri óhugsandi að hún ákveði annan dag fyrr.

„Við erum að gera okkur vonir um að ná niðurstöðu að því er varðar Icesave-deiluna, við erum að gera okkur vonir um niðurstöðu varðandi Norðurlandasamninga, við erum að gera okkur vonir um að það náist áfangar í því í þessum mánuði að það standi sem við höfum sagt um endurreisn bankana. Og ef við náum líka niðurstöðu á þessu þingi um að sækja um aðild að Evrópusambandinu þá tel ég að það séu allar forsendur hér fyrir stöðugleika, sem hægt er að byggja frekari vaxtalækkun á," sagði Jóhanna.

Illugi sagði, að það væri nægilega gott að forsætisráðherra komi í ræðustól og lýsi endalaust yfir vonbrigðum með þróun mála. Það stæði upp á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða sem geri peningastefnunefnd kleift að grípa til vaxtalækkunar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka