Pólitísk staða ekki nýtt

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að stutt lokahrina samningaviðræðnanna um Icesave-reikningana bendi eindregið til þess, að af Íslands hálfu hafi pólitísk staða ekki verið nýtt til hlítar, þegar Bretum þótti brýnt að ljúka málinu og ná sínu fram.

Björn segir á heimasíðu sinni, að myndin sem hafi verið dregin hér á landi af samningsstöðu Íslendinga í þessu máli, hafi verið ákaflega svört frá fyrsta degi. Það stafi af uppnámi innlánseigenda í íslensku bönkunum erlendis í október, þegar íslenska ríkið eignaðist þá.

„Stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi beindu reiði þessa fólks markvisst að Íslandi til að losa sig undan ábyrgð. Brussel-valdið vildi ekki viðurkenna, að regluverk þess hefði brugðist og þrengt var að Íslendingum úr öllum áttum. Breska ríkisstjórnin greip síðan til hryðjuverkalaga gagnvart Íslands til að þrengja enn frekar að íslenskum bönkum og stjórnvöldum.

Myndin nú er ekki hin sama og í október. Fráleitt er, að íslenska banka- og hagkerfið eitt glími við mikinn vanda vegna hrunsins. Hann er ekki síður mikill víða annars staðar og þar á meðal í Bretlandi. Helsta haldreipi Gordons Browns í hremmingum hans heima fyrir er, að hann hafi sýnt frábæra snilldartakta við stjórn efnahagsmála og við að bjarga heiminum öllum frá allsherjarhruni. Það félli illa að þeirri mynd á úrslitastundu í pólitísku lífi Browns, ef deilan við Ísland leystist ekki á þeim nótum, sem hentar Brown," segir Björn.

Hann segir að hinn mikli hraði Breta við að reka smiðshöggið á samninginn við Ísland sé ef til vill ekki nein tilviljun, þegar litið sé á veika stöðu Browns heima fyrir. Það hefði hins vegar átt að styrkja samningsstöðu Íslendinga.  „Ekkert bendir til þess, að látið hafi verið reyna á þennan pólitíska þátt á lokastigum málsins, þvert á móti hafi verið hlaupið til að ljúka málinu á þeim tíma, sem ríkisstjórn Browns hentaði," segir Björn Bjarnason.

Heimasíða Björns

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert