Fjórða flensutilfellið hérlendis

Fjórða tilfelli inflúensu  hefur greinst á Íslandi. Þar á í hlut kona á miðjum aldri og allt bendir til þess að hún hafi smitast af hjónum sem komu hingað frá Bandaríkjunum 3. júní síðastliðinn og greindust bæði með veikina.

Þetta síðasta tilfelli má því rekja til smits hér innanlands en þeir þrír, sem áður höfðu greinst með inflúensuna hérlendis, smituðust allir í Bandaríkjunum og veiktust eftir komuna til Íslands.

Fulltrúar sóttvarnalæknis, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis ræddu stöðu mála á fundi í morgun. Í ljósi þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin - WHO hefur lýst yfir heimsfaraldri, og þar með fært sig upp á neyðarstig, gildir það sama hérlendis, eðli máls samkvæmt. 

Þrátt fyrir það var ákveðið að vinna áfram samkvæmt hættustigi viðbragðsáætlunar hérlendis í ljósi þess að veikin er yfirleitt væg, bæði erlendis og hérlendis. Er þetta einnig í samræmi við skilning WHO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert