„Ekki einfalt að lækka laun ríkisstarfsmanna"

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar

 Af tæplega 18 þúsund starfsmönnum ríkisins voru 454 með yfir eina milljón krónur í laun í marsmánuði síðastliðnum. Þetta kemur fram í tölum sem starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins tók saman í tengslum við fjárlagagerð, að sögn Skúla Helgasonar, alþingismanns Samfylkingarinnar. Hann situr í vinnuhópi um ríkisfjármál sem er meðal annars að skoða þessi mál.

Skúli segir að hafa verði þann fyrirvara á þeim tölum sem fjármálaráðuneytið hefur tekið saman um laun starfsmanna ríkisins, að einungis sé um að ræða einn mánuð, þ.e. marsmánuð. Ekki sé hægt að gefa sér að mánaðarlaun fyrir þann eina mánuði gefi alveg rétta mynd af heildarlaununum. Hins vegar sé vísbendingin skýr.

„Við stöndum í þeim sporum að þurfa að spara verulega í útgjöldum ríkissjóðs,“ segir Skúli. „Hin pólitísku skilaboð eru þau að það sé sanngjarnt að þeir sem mest hafa beri þyngstar byrðar. Það er ekki forsvaranlegt að láta niðurskurðarhnífinn koma fyrst og fremst niður á öryrkjum, barnafólki eða öðrum þeim sem minnst hafa.“

Skúli segir ljóst að það sé engan veginn einfalt mál að lækka launin hjá þeim ríkisstarfsmönnum sem hafi hæstu launin. Margir kjarasamningar liggi á bak við laun starfsmanna ríkisins. En skilaboðin til kjararáðs séu skýr. „Ég held að þetta sé hluti af því að ná sátt í þjóðfélaginu um aðgerðir sem verða erfiðar og sársaukafullar. Fólk verður að hafa fullvissu fyrir því að verið sé að fara fram af sanngirni og haft sé að leiðarljósi að þeir sem best standa þurfi að láta mest af hendi rakna,“ segir Skúli Helgason.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert