Allt að 2500 störf hafa skapast

Byggingariðnaðurinn er stærsti liðurinn í átakinu.
Byggingariðnaðurinn er stærsti liðurinn í átakinu. mbl.is/Golli

Gerð hefur verið samantekt á árangri sérstaks átaks ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og segir iðnaðarráðuneytið, að 2200-2500 störf hafi skapast í átakinu.

Átak ríkisstjórnarinnar miðar að því að draga úr atvinnuleysi með því að skapa allt að 6000 ársverk á næstu misserum. Í tilkynningunni segir að þó að ekki séu komnar tæmandi upplýsingar um alla þætti aðgerðanna er niðurstaðan sú að rekja megi um 2200 til 2500 störf til átaksins.

Í tilkynningunni segir:

„Stærsti einstaki liðurinn í verkefninu er í byggingariðnaði þar sem margt bendir til að fleiri störf verði til en þau 1700 sem reiknað var með í upphafi. Rýmkun á lánum til viðhalds félagslegra íbúða rýmkaðar hefur skilað samningum upp á um 300 ársverk á þessu ári og næsta. Hröðun útboða á leiguhúsnæði fyrir stofnanir ríkisins hefur skilað verkefnum upp á 274 ársverk. Í báðum tilfellum eru enn fleiri verkefni í farvatninu. Þá eru um 300 störf við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss.

Sá liður sem kemur kannski mest á óvart er árangur af hækkuðu endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts vegna kvikmyndaverkefna hér á landi. Samantekt frá íslensku framleiðslufyrirtækjunum leiðir í ljós að 500 störf tengjast kvikmyndagerð hér á landi.

Ánægjulegt er að sjá þróunina í starfsemi frumkvöðlasetra sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands tengist með einum eða öðrum hætti. Fyrir hrun bankakerfisins störfuðu samtals 35 manns hjá fyrirtækjum í tveimur frumkvöðlasetrum. Nú eru frumkvöðlasetrin orðin 8 og þar starfa 165 manns hjá 67 fyrirtækjum.

Verkefninu Starfsorku, sem gerir nýsköpunarfyrirtækjum kleift að ráða sérfræðinga af atvinnuleysisskrá í allt að hálft ár með tilstyrk Vinnumálastofnunar, hefur verið mjög vel tekið. Þegar er búið að heimila ráðningu á 130 af atvinnuleysisskrá til 55 fyrirtækja þar sem þessir starfsmenn munu sinna nýsköpun og þróun skv. þríhliða samningi starfsmanns, fyrirtæki og Vinnumálastofnunar.

Hópurinn sem vann að átakinu mun nú koma saman á ný undir forystu Kristjáns Skarphéðinssonar, ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu, fara yfir stöðuna og leggja til ný verkefni."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert