Fagna útnefningu Steinunnar

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Steinunn Sigurðardóttir og Áslaug Friðriksdóttir formaður …
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Steinunn Sigurðardóttir og Áslaug Friðriksdóttir formaður menningar- og ferðamálaráðs þegar Steinunn var útnefnd borgarlistamaður. Fyrir framan er sonur Steinunnar, Alexander Viðar Pálsson, sem hún tileinkaði verðlaunin.

Rektor og deildarforseti Listaháskólans hafa sent frá sér bréf þar sem fagnað er  útnefningu Steinunnar Sigurðardóttur fatahönnuðar sem borgarlistamanns 2009.  Lýsa þeir furðu á þeirri afstöðu forustumanna Bandalags íslenskra listamanna að þeir einir skuli gjaldgengir til heiðurlistamanns sem séu meðlimir í bandalaginu í gegnum aðildarfélög sín.

Í bréfinu segja Hjálmar H. Ragnarsson, rektor, og Jóhannes Þórðarson, deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar skólans, að Steinunn hafi fyrir löngu sannað hversu heilsteyptur og framúrskarandi listamaður hún sé á sínu sviði. Framlag hennar til íslenskrar menningar sé óumdeilanlegt.

„Jafnframt lýsum við yfir furðu okkar á bókun áheyrnarfulltrúa Bandalagsins í Menningar-og ferðamálaráði Reykjavíkur en þeir eru Ágúst Guðmundsson forseti Bandalagsins og Áslaug Thorlacius formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. Í bókuninni kemur fram sú afstaða forystumanna Bandalagsins að þeir einir skulu gjaldgengir til heiðurlistamanns sem eru meðlimir í samtökunum í gegnum aðildarfélög sín.

Það verður ekki fram hjá því horft að bókunin beinist að listamanninum Steinunni og jafnframt að hönnun sem gildri og viðurkenndri listgrein. Umfram allt ber hún þó vott um gjörræði og þröngsýni sem búast hefði mátt við að heyrði sögunni til," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert