Fréttaskýring: Minni björgunargeta Landhelgisgæslunnar

mbl.is/Kristinn

Björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) munu ekki geta komið sjófarendum utan 20 sjómílna til bjargar fjórðung til þriðjung úr ári og reikna verður með að eftir haustið fjölgi þeim dögum sem engin björgunarþyrla verður tiltæk. Frekari niðurskurður myndi setja rekstur LHG á hliðina, segir forstjórinn.

Í svari Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Róberts Marshall á þingi kom fram að áætlað er að fækka um eina þyrluáhöfn hjá LHG á árinu. Það hafi í för með sér að meðaltali að 25 – 35% hvers mánaðar verði aðeins ein vakt starfhæf.

Við slíkar aðstæður eru það reglur að aðeins er flogið um 20 sjómílur á haf út, í því skyni að tryggja öryggi þyrluáhafnarinnar. „Með þessu teljum við að öryggi okkar fólks sé jafntryggt en getan er minni,“ segir Georg Lárusson, forstjóri LHG. Þetta vekur spurningar um hvort minni geta komi ekki niður á öryggi sjófarenda eða almennings. „Það gæti gert það en það hefur ekki gerst ennþá því við höfum getað sinnt öllum okkar verkefnum sem hafa komið upp,“ svarar Georg.

Raunar eru skiptar skoðanir meðal starfsmanna LHG hvort áætlun um eina vakt 25 – 35% af tímanum sé raunhæf. Nærri láti að svo geti farið að vaktin verði einföld 50 – 75% af tímanum. Georg vísar þessu á bug. „Við höfum reiknað þetta út eftir bestu vitund. Svo getur vel verið að einhverjir svartsýnismenn telji að þetta sé ekki rétt.“

LHG hefur yfir þremur þyrlum að ráða og kemur fram í svari ráðherra að á einhverjum tímapunktum verði tvær þeirra í viðhaldi. Þá sé óvíst hve oft þriðja þyrlan bilar á meðan. Líklegt sé að allt að tíu daga á ári geti LHG staðið frammi fyrir því að hafa engri flughæfri þyrlu á að skipa.

Siglum inn í erfiðari tíma

Um þetta eru einnig skiptar skoðanir og telja ýmsar heimildir Morgunblaðsins að þarna sé varlega áætlað. Menn eru þó sammála um að í þessu sé mikil óvissa fólgin. Séu menn heppnir gæti svo farið að landið sleppi alveg við daga án björgunarþyrlu. Þannig var það að mestu í fyrra en þá varð aldrei heill dagur þyrlulaus í landinu. Síðan hefur flugvirkjum fækkað svo erfiðara er að halda þyrlunum þremur gangfærum. „Við erum því að sigla inn í erfiðari tíma svo við verðum að fara að gera ráð fyrir að það verði einhverjir dagar þyrlulausir,“ segir heimild blaðsins.

Í þessu samhengi er vert að athuga að þegar bandaríski herinn fór héðan með sínar þyrlur áætluðu sérfræðingar að hægt væri að halda uppi fullri þyrluþjónustu í landinu með fjórum þyrlum. Frá því fyrri hluta árs í fyrra hafa þær aðeins verið þrjár og verða áfram. Munurinn er því mikill frá því að herinn var hér með sínar fimm björgunarþyrlur til viðbótar við tvær þyrlur Gæslunnar.

Í svari ráðherra kom einnig fram að áætlaður kostnaður við að leigja fjórðu þyrluna væri nálægt 700 milljónum á ári. Georg staðfestir þetta. „Til að geta verið með viðunandi viðbúnað þurfum við eina þyrlu og þrjá flugmenn, þrjá stýrimenn og þrjá flugvirkja til viðbótar. Það kostar um 750 milljónir á ársgrundvelli.“

Í UMRÆÐUM á Alþingi viðraði Siv Friðleifsdóttir þingmaður þá hugmynd að lífeyrissjóðirnir í landinu kæmu að málum Landhelgisgæslunnar með „því að losa okkur út úr þessari ofurleigu, þetta er ótrúlega há upphæð, 60 milljónir á mánuði í leigu á þyrlu“. Hún spurði ráðherra ennfremur hvort til stæði að endurskoða málin svo hægt væri að hafa eina þyrluáhöfn í viðbót.RAGNA Árnadóttir dómsmálaráðherra sagði að björgunarþjónusta við sjófarendur yrði að vera forsvaranleg. „Ég verð að segja að ég fylltist efasemdum þegar ákveðið atvik varð 1. júní og þá varð að reiða sig á velvilja og viðveru starfsmanna sem ekki voru á vakt,“ sagði hún og tók undir áhyggjur um að málin væru ekki með fullnægjandi hætti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka