Ekki víst að ESB setji hvalveiðar fyrir sig

Búist er við að hvalveiðar Íslendinga verði gagnrýndar harðlega á …
Búist er við að hvalveiðar Íslendinga verði gagnrýndar harðlega á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hefst í dag. Reuters

Ekki er víst að Evrópusambandið muni gera þá kröfu, í hugsanlegum aðildarviðræðum við Ísland, að Íslendingar hætti hvalveiðum. Þetta hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir umhverfisráðherra Portúgals. Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst á portúgölsku eyjunni Madeira í dag. 

„Þetta er mál sem við þurfum að ganga frá ásamt Íslandi og innan Evrópusambandsins, hefur BBC eftir Humberto Rosa, umhverfisráðherra Portúgals. „Það er hægt að hafa svigrúm innan Evrópusambandsins fyrir mjög mismunandi aðstæður í aðildarríkjunum."

Reynt hefur verið á undanförnum mánuðum að ná samkomulagi innan Alþjóðahvalveiðiráðsins milli þeirra ríkja, sem styðja að hvalveiðibanni ráðsins verði aflétt með takmörkuðum hætti og hinna sem eru alfarið andvíg hvalveiðum. Markmiðið er einkum, að Japanir hætti umfangsmiklum vísindaveiðum á hrefnu og fleiri hvalategundum í Suðurhöfum en á móti fái þeir að veiða hrefnu í atvinnuskyni við strendur landsins. 

William Hogarth, fráfarandi forseti Alþjóðahvalveiðiráðsins, hefur beitt sér fyrir þessum samningaviðræðum. Markmiðið var að ljúka þeim fyrir ársfundinn nú en það tókst ekki. Hogarth segir, að viðræðurnar hafi ekki gengið eins vel og vonast var til. Ríki taki þessi mál mjög alvarlega og sum vilji ekki gefa neitt eftir.

Rosa segist ekki vera andvígur strandveiðum í sjálfu sér. „Ég tel að það eigi að leyfa þær með ströngum skilyrðum þannig að ekki sé hægt að stunda þær hvar sem er í heiminum heldur á afmörkuðum svæðum undir ströngu eftirliti," segir hann. 

Búist er við að Ísland muni sæta mikilli gagnrýni á fundinum á Madeira fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni, sem nú eru hafnar. Búið er að veiða 15 hrefnur og 4 langreyðar.

Þá er búist við að mikil umræða verði um kröfu Grænlendinga um að fá að veiða hnúfubaka, sem hafa verið alfriðaðir undanfarna áratugi.      

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka