Eldri borgarar mótmæla

Eldriborgarar telja gengið á rétt sinn með skerðingu lífeyris.
Eldriborgarar telja gengið á rétt sinn með skerðingu lífeyris. mbl.is/Ásdís

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara og kjaranefnd sambandsins hafa sent frá sér ályktun þar sem krafist er þess að kjaraskerðing eldri borgara og öryrkja, sem boðuð er á yfirstandandi ári í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármál, verði umsvifalaust dregin til baka.

Í ályktuninni segir: „Hugmyndum um að spara ríkisútgjöld á kostnað eldri borgara og öryrkja sem kynntar voru á svokölluðum samráðsfundum fulltrúa þessara hópa var harðlega mótmælt.  Bent var á að eldri borgarar töpuðu um 30 milljörðum af sparifé sínu sem var í formi hlutabréfa þegar bankarnir hrundu og umtalsverðir fjármunir töpuðust einnig í sjóðum sem þeim hafði verið ráðlagt að fjárfesta í af starfsmönnum bankanna."

Landssambandið bendir einnig á þá kjaraskerðingu sem hefur orðið hjá eldri borgurum og öryrkjum frá síðustu áramótum og segir í ályktuninni að á sama tíma er litið á verðbætur vegna verðbólgu sem tekjur og því hafa fylgt umtalsverðar skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun.

Í ályktuninni segir:

„Eldri borgarar mótmæla því, að þeim, ásamt öryrkjum, skuli ætlað að taka á sig launalækkun frá 1. júlí nk. á sama tíma og rætt er um að launþegar á almennum vinnumarkaði haldi óbreyttum launum eða fái jafnvel launahækkun. Boðuð launalækkun hæst launuðu ríkisstarfsmanna er ekki sambærileg launalækkun eldri borgara og öryrkja og allt er í óvissu um hvort eða hvenær launalækkun ríkisstarfsmanna kemur til framkvæmda.
Skerðing tekjutryggingar lífeyrisþega lækkar laun aldraðra og hið sama er að segja um lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna aldraðra. Sú ráðstöfun lækkar einnig laun aldraðra. Fram til þessa hefur ekki verið heimilt að skerða grunnlífeyri aldraðra vegna tekna úr lífeyrissjóði. Grunnlífeyrir hefur aðeins verið skertur þegar um háar tekjur af atvinnu eða fjármagni hefur verið að ræða. Nú hefur verið ákveðið að láta tekjur úr lífeyrissjóði skerða grunnlífeyri. Landssamband eldri borgara mótmælir stefnubreytingu stjórnvalda og telur að afnema eigi með öllu skerðingu tryggingarbóta vegna tekna úr lífeyrissjóði en hér er  stefnt í öfuga átt.

Landssambandið mótmælir því að ríkisstjórnin skuli við niðurskurð ríkisútgjalda ráðast fyrst á velferðarkerfið, einkum eldri borgara og öryrkja enda er það algjörlega andstætt þeirrar yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar að koma hér á norrænu velferðarkerfi.  Niðurskurður almannatrygginga á að koma til framkvæmda þann 1. júlí nk. en þá þegar eiga laun eldri borgara og öryrkja að lækka.

Landssambandið mótmælir harðlega að lífeyrisþegum sé tilkynnt með 10 daga fyrirvara að laun þeirra eigi að lækka. Ríkisstjórnin verður að draga þessa launalækkun til baka."

Undir þetta ritar Helgi K. Hjálmsson formaður Landssambands eldri borgara.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert