Óvíst að sáttmáli náist í dag

Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB og formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB og formaður SFR. mbl.is

Óvíst er að stöðugleikasáttmáli náist fram í dag. Þeir sem sitja við stóra samningaborðið, aðilar vinnumarkaðarins og hins opinbera, eru staddir í Karphúsinu. Ráðgert er að funda með ríkisstjórninni nú eftir kl. hálf sex.

„Það var verið að gæla við að ná langt í dag, en klukkutímarnir líða svo ég er ekki viss um hver niðurstaða dagsins verður,“ segir Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB. Nokkurs konar drög að sáttmála hafi þó litið dagsins ljós eftir fund með ríkisstjórninni í hádeginu.

Fyrr í dag birtist frétt á vef BSRB þess efnis að stöðugleikasáttmálinn væri að fæðast. Árni kveðst hafa verið ögn bjartsýnni um það leyti sem fréttin var sett fram.

„En það er gott hljóðið í fólki og allir eru að reyna að gera sitt besta til að ná saman. Vilji allra sem hér eru stendur til þess að skrifa undir sameiginlegan pappír.“

Að öllum líkindum verður fundað fram eftir kvöldi í Karphúsinu.

Við stóra samningaborðið sitja launamenn, ASÍ, BHM, BSRB, kennarar og bankamenn, sem og SA, ríki og sveitarfélög.

Ef tekst að skrifa undir sáttmála er ráðgert að starfsmenn hjá hinu opinbera setjist niður og geri kjarasamning, en samningar þeirra eru lausir nú 1.júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert