Sjálfstæðismenn ræddu við VG

Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi sagði að Sjálfstæðismenn hefðu í dag verið að velta þeim möguleika fyrir sér að tekið yrði upp meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í Kópavogi.

„Það hefur svona óbeint og óformlega verið imprað á þessu við mig en ég hef verið alveg hreinskilinn með að það er ekki sá valkostur sem við myndum velja fyrst og við myndum ekki velja hann fyrr en aðrir kostir hafa verið reyndir til þrautar," sagði Ólafur Þór.

„Við höfum sagt það alveg frá því að þessi vandræðagangur byrjaði allur að við ætlum ekki að hjálpa öðrum hvorum flokknum að slíta meirihlutanum, þeir verða að sjá um það sjálfir og í öðru lagi ef það slitnar upp úr meirihlutanum þá erum við náttúrulega til viðræðu um meirihlutasamstarf en það liggur í hlutarins eðli að það samstarf sem við myndum fyrst horfa til er meirihlutasamstarf til vinstri," sagði Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi í samtali við mbl.is.

Fulltrúaráð bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi hafa verið boðuð til funda klukkan 20 í kvöld til að fjalla um meirihlutasamstarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert