Þriðja útgáfa matvælafrumvarps

mbl.is/Jim Smart

Matvælafrumvarp það sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur hug á að leggja fram er þriðja útgáfa frumvarpsins. Tvær fyrri útgáfurnar komust ekki í gegn um þingið. Ríkisstjórnin hefur samþykkt framlagningu frumvarpsins og það átti að ræða í þingflokkum stjórnarflokkanna í gær.

Matvælafrumvarpið snýst um að innleiða matvælatilskipun Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðinu, eins og samið var um á árinu 2007. Verði tilskipunin innleidd hér á landi tekur hún til viðskipta með landbúnaðarvörur sem eru undanþegnar ákvæðum EES-samningsins. Frumvarpið var fyrst lagt fyrir Alþingi veturinn 2007 til 2008 en náði ekki fram að ganga fyrir þinglok þá um vorið. Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, kom til móts við gagnrýni Bændasamtakanna og fleiri hagsmunaaðila, lagði frumvarpið fram að nýju í desember 2008 og mælti fyrir því í janúar. Ný stjórn lét frumvarpið sofa áfram í nefndinni.

Snýst um innflutning á hráu kjöti

Mesta andstaðan beindist gegn þeim afleiðingum nýrra reglna að opnað verði fyrir innflutning á hráu, ófrosnu kjöti til landsins. Ákvæði þess efnis voru áfram í gamla frumvarpinu þrátt fyrir andstöðu Bændasamtakanna. Þingmenn Vinstrihreyfin garinnar – græns framboðs stóðu framarlega í fylkingu í baráttunni gegn frumvarpinu. Þeir töldu það stefna matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu. „Krafa okkar og þeirra sem bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti er að frumvarpinu verði hafnað og samningaviðræður við Evrópusambandið teknar upp að nýju,“ skrifuðu þeir Atli Gíslason og Jón Bjarnason, þingmenn flokksins, sl. haust.

Nú er Jón í nýrri aðstöðu, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann ber fram breytt frumvarp og kom því í gegn um ríkisstjórnina þrátt fyrir nokkra töf. Hann fer því ekki þá leið sem hann sjálfur krafðist, að hafna frumvarpinu og reyna að semja að nýju við ESB. Fyrir liggur að sett eru inn ákvæði til að hindra innflutning á hráu kjöti, væntanlega til að tryggja matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert